Íslenski boltinn

„Þetta er ein­stakur strákur“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sölvi Geir Ottesen segir söknuð af Danijel Djuric en gott að endurheimta stóra pósta úr banni fyrir kvöldið.
Sölvi Geir Ottesen segir söknuð af Danijel Djuric en gott að endurheimta stóra pósta úr banni fyrir kvöldið. vísir/Aron

Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, segir sjónarsvipti vera af Danijeli Djuric sem yfirgaf félagið í vikunni. Þar með fækkar um einn í leikmannahópi Víkinga fyrir stórleik kvöldsins við Panathinaikos í Sambandsdeild Evrópu. Sölvi endurheimtir hins vegar tvo aðra.

Danijel fór frá Víkingi til Istra í Króatíu í vikunni með skömmum fyrirvara. Félagsskiptaglugginn í Króatíu lokaði á mánudaginn var og þurfti að hafa hraðar hendur. Sölvi segir söknuð vera af góðum leikmanni og betri manneskju.

„Við erum mjög stoltir og kveðjum hann vissulega með söknuði. Þetta er skemmtilegur og einstakur strákur. Við munum fylgjast með honum. Hann verður alltaf Víkingur og verður gaman að fylgjast með honum að prófa sig á stærra sviði,“ segir Sölvi í samtali við íþróttadeild.

Fyrirliðinn til taks

Víkingur getur ekki bætt við leikmannahóp liðsins í Sambandsdeildinni og getur þá Gylfi Þór Sigurðsson til að mynda ekki tekið sæti Danijels eftir skipti hans frá Val í vikunni.

Víkingur var án fyrirliðans Nikolaj Hansen sem og Karls Friðleifs Gunnarssonar í fyrri leiknum við Panathinaikos en þeir snúa aftur í kvöld eftir leikbann.

„Tilkoma Niko og Kalla er náttúrulega mikið fagnaðarefni fyrir okkur. Hópurinn okkar stækkar og breikkar. Við höfum fleiri möguleika og valkosti fyrir seinni leikinn. Því fleiri leikmenn sem koma til baka og eru til taks fyrir okkur er gleðiefni,“ segir Sölvi.

Víkingur leiðir 2-1 fyrir síðari leik liðsins við Panathinaikos í kvöld. Leikur liðanna hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×