Fótbolti

Heimir: Afrek að halda markinu hreinu tíu gegn ellefu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Daníel
Heimir Hallgrímsson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins, sagði leikmenn íslenska liðsins hafa verið heilt yfir nokkuð ánægða með úrslitin þegar þeir komu inn í klefa að leik loknum.

„Auðvitað lágu þeir á okkur í síðari hálfleik. Það sáu allir,“ sagði Heimir. Ákveðnu markmiði hefði þó verið náð.

„Við fórum inn í leikinn með það að markmiðið að fá ekki á okkur mark ellefu gegn ellefu. Það er enn meira afrek að geta það tíu gegn ellefu. Þetta var auðvitað ekki sigur en ákveðinn varnarsigur,“ sagði Eyjapeyinn.

Heimir sagði Króata hafa komið íslenska liðinu á óvart í upphafi þar sem þeir blésu til sóknar.

„Þeir fengu strax færi en við fengum hins vegar tvö færi á móti,“ sagði Heimir. Hann hafi reiknað með að leikurinn yrði opinn í framhaldi af því en bæði lið hafi dregið sig til baka og þétt varnirnar.

„Þeir voru sókndjarfir í dag og þið getið ímyndað ykkur hvað þeir gera á heimavelli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×