Sport

Phelps gæti synt á ÓL í Ríó

Michael Phelps.
Michael Phelps. vísir/getty
Sigursælasti íþróttamaður í sögu Ólympíuleikanna, sundkappinn Michael Phelps, er hugsanlega á leiðinni í laugina á nýjan leik.

Phelps henti skýlunni upp í hillu eftir Ólympíuleikana í London. Þá var hann búinn að afreka að vinna 18 Ólympíugull. Hann hefur einnig fengið tvö silfur og tvö brons á Ólympíuleikunum.

Þessi ótrúlegi afreksmaður var löngu búinn að gefa út að hann myndi hætta eftir leikana í London. Hann hefur staðið við það hingað til og í staðinn reynt fyrir sér sem kylfingur.

Phelps er aftur á móti búinn að skrá sig aftur hjá lyjfaeftirliti Bandaríkjanna en íþróttamenn sem ætla að keppa fyrir hönd þjóðarinnar þurfa að vera skráðir þar.

Hann er farinn að æfa aftur með Bob Bowman en vill ekkert gefa út um hvort hann ætli sér að keppa aftur.

"Það er ekkert ákveðið. Ef ég held áfram að æfa þá mun ég keppa. Þetta verður bara að koma í ljós," sagði Phelps við blaðamenn.

Næstu Ólympíuleikar fara fram í Ríó árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×