Samkvæmt tillögum hagræðingahóps ríkisstjórnarinnar verða framlög til þróunarmála endurskoðuð og nýleg hækkun dregin til baka. Samkvæmt núgildandi áætlun eiga um 24 milljarðar króna samtals að fara í þróunaraðstoð eða um 0,42 prósentum af landsframleiðslu.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, átti sæti í hagræðingarhópnum. Hún vildi ekki tjá sig um tillögur hópsins þegar Vísir hafði samband við hana og benti á formanninn, Ásmund Einar Daðason.
Vigdís hefur áður talað gegn þróunarastoð en hún kaus gegn tillögu um greiðslu þróunaraðstoðar þegar hún kom fyrir þing í byrjun árs.
„Þetta brýtur gegn sannfæringu minni. Að vera að hækka þessi gjöld,“ sagði Vigdís þá í samtali við Stöð 2.
„Tuttugu og fjórir milljarðar í erlendum gjaldeyri næstu fjögur ár, á meðan að íslenska þjóðin telur sig ekki hafa efni á því að gera hér þær bætur á Landspítalanum sem þarf til þess að bjarga lífi og limum landsmanna. Gjaldþrota maður getur ekki borgað fyrir aðra,“ sagði Vigdís meðal annars.

