Fótbolti

Umfjöllun og myndir: Noregur - Ísland 1-1 | Ísland er komið í umspilið

Strákarnir fagna gegn Noregi í Ósló í kvöld.
Strákarnir fagna gegn Noregi í Ósló í kvöld. mynd/vilhelm
Ísland er komið í umspil um sæti á HM í fótbolta í Brasilíu 2014 eftir 1-1 jafntefli við Norðmenn á Ullevaal-leikvanginum í Ósló í kvöld en þá fram lokaumferðin í riðlinum. Ísland tryggði sér með þessu annað sæti E-riðlilsins þar sem að Svisslendingar unnu 1-0 sigur á Slóveníu á sama tíma.

Íslensku strákarnir fögnuðu gríðarlega í leikslok enda er þetta án vafa stærsta stundin í sögu íslenska karlalandsliðsins. Íslenska liðið endar með 17 stig eða tveimur stigum meira en Slóvenar. 

Kolbeinn Sigþórsson kom Íslandi yfir á 12. mínútu leiksins en Norðmenn náðu að jafna átján mínútum síðar. Íslenska liðið fékk þrjú frábær færi til að tryggja sér sigurinn í seinni hálfleik en annað markið leit ekki dagsins ljós. Norðmenn voru reyndar mikið með boltann í seinni hálfleiknum en náðu sem betur fer ekki að skapa sér neina alvöru færi og liðin sættust á jafntefli. Það reyndust vera frábær úrslit fyrir Ísland.

Íslenska liðið lenti í því að verja jafnteflið stærsta hluta seinni hálfleiks og skynsamur leikur lengstum átti sinn þátt í því að Norðmenn náðu ekki að skapa sér mikið. Spennan hélt allt til leiksloka þar sem að sigurmarkið datt ekki þrátt fyrir góð færi.

Norðmenn byrjuðu leikinn miklu betur og unnu boltann margt í hápressunni á upphafsmínútum leiksins. Fyrir vikið sköpuðu þeir sér nokkur hálffæri en það var hinsvegar íslenska liðið sem náði fyrstu alvöru sókninni og skoraði úr því fyrsta mark leiksins á 12. mínútu.

Það voru gulldrengirnir Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson sem áttu þetta mark skuldlaust. Kolbeinn átti gott hlaup og fann pláss á milli norsku miðvarðanna. Gylfi fann hann eftir frábæra sókn og Kolbeinn skoraði í fimmta landsleiknum í röð. Kolbeinn tók boltann með sér, snéri sér við og afgreiddi hann síðan fagmannlega í markið.

Eftir markið tóku íslensku strákarnir öll völd og frábærir íslenskir áhorfendur voru farnir að bíða eftir öðru marki. Eiður náði ekki nógu góðum skall eftir fyrirgjöf frá Birki og Gylfi átti skot úr aukaspyrnu sem Rune Jarstein varði í horn. Íslenska liðið átti samt áfram í erfiðlegum gegn pressu norska liðsins.

Jöfnunarmark Norðmanna kom samt upp úr engu á 30. mínútu en varnarleikur íslenska liðsins var þá ekki merkilegur. Allir voru langt frá mönnunum sínum og lentu í því að elta boltann. Norðmenn spiluðu sig vel í gegn með einni snertingu. Frábær snerting frá Daniel Braaten kom sókninni á flug og hann rak síðan endahnútinn á sóknina eftir að hafa fengið boltann aftur inn fyrir.

Norska liðið var síðan mun sterkara liðið næstu mínútur á eftir markinu og það tók íslenska liðið smá tíma að jafna sig. Gylfi Þór Sigurðsson var síðan í þrígang nálægt því að skapa sér gott skotfæri á lokakafla hálfleiksins en í tvígang komst Brede Hangeland fyrir boltann og lokaskot hálfleiksins var síðan framhjá úr mjög þröngri stöðu við endamörkin.

Norðmenn tóku völdin í seinni hálfleik og voru mikið með boltann en það voru samt Íslendingar sem sköpuðu sér langhættulegustu færin.

Eiður Smári Guðjohnsen fékk frábært færi rétt áður en hann var tekinn af velli á 59. mínútu en Rune Jarstein varði vel frá honum. Skömmu síðar varði Rune Jarstein frá Birki eftir að Birki hafði komið sér í færi á markteignum. Birkir datt í teignum en stóð upp aftur og kom sér í fínt færi.

Kolbeinn Sigþórsson fékk síðan frábært skotfæri í lokin en skot hans fór yfir.  Í öll þessi skipti hefði íslenska liðið auðveldlega getað skorað og komið sér í frábæra stöðu.  Það skipti sem betur fer ekki máli því Svisslendingar kláruðu sinn leik og Ísland er komið í umspil um laus sæti á HM í Brasilíu á næsta ári.

mynd/vilhelm
mynd/vilhelm
mynd/vilhelm
mynd/vilhelm
mynd/vilhelm
mynd/vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×