Hafdís Pála Jónasdóttir úr KFR og Kristófer John Unnsteinsson úr ÍR tryggðu sér í gær Íslandsmeistaratitil einstaklinga með forgjöf í keilu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Keilusambandi Íslands.
Hafdís Pála vann úrslitaleikinn á móti Vilborgu Lúðvíksdóttur úr ÍA en Kristófer John hafði betur á móti Baldri Haukssyni úr ÍFH. Þetta er í fyrsta skipti sem þau bæði vinna þennan titil.
Í úrslitunum hjá konunum tryggði Hafdís Pála sér sigurinn í fyrsta leiknum með 244 með forgjöf (215 + 29) á móti 208 hjá Vilborgu (168 + 40). Annar leikinn vann Hafdís Pála einnig með stórleik 234 með forgjöf (205 + 29) en Vilborg spilaði 172 með forgjöf (132 + 40). Þar sem Hafdís Pála hafði verið í 2. sætinu að loknum undanúrslitum þurfti hún að vinna 3 leiki til að tryggja sér titilinn og þriðji leikurinn var spennandi þar sem Hafdís Páll vannn með aðeins 5 pinnum eða með 208 með forgjöf (179 + 29) á móti 203 með forgjöf (163 + 40) hjá Vilborgu.
Kristófer John Unnsteinsson úr ÍR tryggði sér efsta sætið í karlaflokki á fyrri degi forkeppninnar og hélt öruggri forystu allt til loka keppninnar með góðri spilamennsku. Í úrslitunum var Kristófer öryggið uppmálað og tryggði sér titilinn með góðri spilamennsku. Hann vann fyrsta leikinn með 239 með forgjöf (210 + 29) á móti 188 með forgjöf hjá Baldri (116 + 72) og svo annan leikinn með 251 með forgjöf (222 + 29) á móti 139 + 72 ) hjá Baldri.
Hafdís Pála Jónasdóttir úr KFR er aðeins 17 ára að aldri og þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill hennar í fullorðinsflokki. Hún tryggði sér á síðasta ári sæti í unglingalandsliðinu í keilu og keppti með liðinu á Evrópumóti unglinga 2012 í Álaborg í Danmörku og mun keppa með liðinu á sama móti sem haldið verður í Vín í Austurríki dagana 23. mars – 1. apríl n.k.
Kristófer John Unnsteinsson úr ÍR er 22 ára og var að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil. Hann hefur eingöngu stundað keiluíþróttina í tvö ár og tekið miklum framförum á þeim tíma.
