Lið Jökuls keppir í nokkrum tölvuleikjum, en hann einskorðar sig við herkænskuleikinn Starcraft 2.
„Ég hef verið að spila Starcraft í tvö ár, þar af síðasta hálfa árið af alvöru,“ segir Jökull. Áður en hann flutti til Sviss um miðjan júní æfði hann fjórum sinnum í viku. Nú æfir hann í um átta klukkustundir á dag. „Þetta er voðalega svipað og hver önnur vinna.“
Jökull hefur keppt á stærstu Starcraft-mótunum í Evrópu og náð góðum árangri þó samkeppnin sé hörð. Hann náði 33. til 48. sæti á móti þar sem 70 atvinnumenn kepptu.
Jökull náði augum liðsstjórnenda atvinnuliðanna með góðum árangri í mótum sem spiluð eru í gegnum netið. Breskt lið bauð honum á mót þar sem hann náði 12. til 15. sæti, og þá fór boltinn að rúlla og Jökli var boðið starf.
Snerpan skiptir öllu
„Það skiptir öllu máli í þessum leik að vera með mjög mikla snerpu og vera góður í að gera marga hluti í einu,“ segir Jökull. Mæla má snerpuna með því að telja skipanir sem leikmennirnir gefa á hverri mínútu. Góðir leikmenn ná á bilinu 100 til 150 skipunum á mínútu, en atvinnumenn eins og Jökull ná 300 eða fleiri.
Þessi gríðarlega snerpa gerir það af verkum að ferill atvinnumanns í tölvuleikjaspilun er stuttur. Jökull segir að þegar þrítugsaldurinn nálgist hægist svo mikið á viðbrögðunum að atvinnumannaferillinn sé sjálfkrafa á enda.
Þó dagleg störf snúist um æfingar tekur alvaran við á reglulegum mótum, sem eru til dæmis haldin í Bretlandi, í Sviss, á Spáni, í Svíþjóð og víðar. Eins og hjá atvinnumönnum í íþróttum er pressan á að standa sig vel mikil.
Jökull segir að fjöldi atvinnumanna í tölvuleikjaspilun sé alltaf að aukast. Nú séu um 300 atvinnumenn í spilun Starcraft, þar af um 100 til 150 í Evrópu.
Liðin fjármagna sig með sama hætti og íþróttalið. Þau fá styrki frá auglýsendum og áhorfendur greiða fyrir að fylgjast með leikjum. Launakjörin eru misjöfn, en bestu leikmennirnir eru með mánaðarlaun á bilinu eina til tvær milljónir króna. Við það bætist verðlaunafé á mótum.
Jökull hefur verið í námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, og ætlar að skoða hvort hann geti verið í fjarnámi meðfram atvinnumennskunni í vetur. Annars stefni hann á atvinnumennsku í einhver ár og svo taki skólinn við á ný.

Tölvuleikurinn Starcraft II kom út árið 2010 og hefur náð að halda gríðarlegum vinsældum síðan. Sögusvið leiksins er stríðshrjáð framtíð þar sem menn berjast gegn geimverum um yfirráð á fjarlægum plánetum. Leikmenn þurfa að byggja upp geimstöð og ráðast gegn stöðvum andstæðingsins um leið og þeir verjast árásum.
Þeir sem keppa í spilun á Starcraft keppa hver við annan í stuttum leikjum, ýmist í gegnum nettengingu eða á mótum.