Enski boltinn

Telegraph: Sir Alex Ferguson að hugsa um að hætta í lok vikunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United. Mynd/NordicPhotos/Getty
Enska dagblaðið Telegraph slær því upp í kvöld að Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sé að íhuga það alvarlega að hætta sem stjóri félagsins fyrir lok vikunnar. Blaðið fékk engin viðbrögð frá Manchester United í kvöld þegar blaðamaður Telegraph bar þessar sögusagnir undir menn á Old Trafford.

Hinn 71 árs gamli Sir Alex Ferguson hefur verið knattspyrnustjóri Manchester United í 26 ár og gerði félagið að Englandsmeisturum í þrettánda sinn á þessu tímabili.

Heimildir blaðamanna Telegraph koma frá golfdegi Manchester United í dag þar sem leikmenn kepptu á móti þjálfurum félagsins. Fréttir af hugsanlegri afsögn Sir Alex fóru þar um eins og eldur í sinu.

Samkvæmt þeim á Sir Alex Ferguson að vera pæla í því að tilkynna endalok sín fyrir leik Manchester United á móti Swansea á Old Trafford um helgina.

Sir Alex Ferguson hefur neitað því að undanförnu að hann sé að fara leggjast í helgan stein en karlinn er að fara í mjaðmaraðgerð aðeins tveimur vikum fyrir næsta tímabil.  Heilsan hefur að hans eigin sögn verið það eina sem kemur í veg fyrir að hann haldi áfram með liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×