Innlent

Engin sérmeðferð fyrir Snowden

Karen Kjartansdóttir skrifar
Edward Snowden fær enga flýtiafgreiðslu eða sérmeðferð hjá íslenskum stjórnvöldum. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra segir almennar reglur gilda um hælisleitendur og mikilvægt sé að fara ekki í manngreinarálit.

,,Löggjöfin er almenn, hún felur ekki í sér að hægt að sé að mismuna fólki. Hún verður að gilda fyrir alla jafnt. Það er ekki nein sérstök meðferð sem menn geta gengið að heldur lýtur þetta að því að allir geti gengið að því sem vísu að löggjöfin sé almenn og gangi jafnt yfir alla. Þannig verður löggjöfin áfram og hún verður að virka þannig," segir Hanna.

En skemmst er að minnast þess að skákmeistaranum Bobby Fischer var veittur ríkisborgarréttur hér á landi árið 2005. Fischer hafði löngum verið gagnrýndur fyrir gyðingahatur og fyrirlitningu á Bandaríkjunum. Eftir að hann virti alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn Júgóslavíu að vettugi árið 1992, með því að sækja skákeinvígi þar í landi var hann eftirlýstur af bandarískum yfirvöldum. Hann fluttist þá til Japan þar sem hann var hnepptur í fangelsi. Íslendingar réttu honum þá hjálparhönd og fór frumvarp um ríkisborgararétt hans umræðulaust í gegnum þingið og var síðan samþykkt með 40 samhljóða atkvæðum.

Kæmi slík sérmeðferð til greina í tilfelli Snowdens?

„Hann óskaði ekki eftir pólitísku hæli heldur ríkisborgararétti. Það er allt öðruvísi mál auk þess sem það var samþykkt að veita honum það á grundvelli þeirra tengsla sem voru við landið þannig það voru sérstakar aðstæður í kringum það. Löggjöfin fyrir þá sem leita hér hælis er mjög skýr og hún er almenn og hún verður að gilda eins fyrir alla," segir Hanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×