Meðlimir rússnesku kvenhljómsveitarinnar Pussy Riot gætu fengið frelsið á ný á morgun. Þjóðþingið í Rússlandi hefur samþykkt lög Vladimír Pútíns Rússlandsforseta um náðanir fanga í Rússlandi. Guardian segir frá.
Konurnar tvær, María Aljokína og Nadesjda Tolokonnikova voru dæmdar ásamt þeirri þriðju, Jekaterína Samúsevitsj, í tveggja ára fangelsi í ágúst árið 2012 fyrir óeirðir þegar þær héldu pönkmessu í febrúar sama ár.
Í október 2012 komst áfrýjunardómstóll í Moskvu að þeirri niðurstöðu að Samúsevitsj hefði ekki tekið jafn virkan þátt i pönkmessunni og hinar tvær og var hún því látin laus.
Þær Aljokína og Tolokonnikova hafa setið inni síðan þær voru handteknar fyrir bráðum tveimur árum síðan. Þær hafa nú verið náðaðar og munu losna fljótlega úr fangelsinu.
Liðsmenn Greenpeace-samtakanna, sem handteknir voru í haust fyrir að efna til mótmæla við rússneskan olíuborpall, voru einnig meðal þeirra sem voru náðaðir og mega þeir búast við að verða lausir fyrir jólin.
Rússneska stjórnarskráin á 20 ára afmæli og af því tilefni náðaði Pútín Rússlandsforseti 25 þúsund manns.