Íslenski boltinn

FH-ingar afar ósáttir með lítinn uppbótartíma í kvöld

Sigmar Sigfússon á Kaplakrikavelli skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. Mynd/Daníel
FH og Valur gerðu 3-3, jafntefli á Kaplakrikavelli í 20. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Atli Viðar Björnsson jafnaði leikinn á síðustu sekúndum leiksins eftir að Valsmenn höfðu komist í 1-3 í leiknum.

Eftir lokaflautið brjáluðust FH-ingar út í Villhjálm Alvar, dómara leiksins. Bæði leikmenn, þjálfarar ásamt starfsmönnum knattspyrnudeildar FH óðu inn á völlinn í átt að dómaranum.

Davíð Þór Viðarsson, miðjumaður FH, fékk að líta rauðaspjaldið í látunum sem áttu sér stað.

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sagði í viðtali eftir leikinn að uppbótartíminn sem Vilhjálmur bætti við væri óskiljanlegur og alltof stuttur.

„Ég var mjög ósáttur við þennan uppbótartíma sem var bætt við. Ég vildi fá lengri tíma þar sem þessi loka skipting hjá Valsmönnum tók hátt í mínútu,“ sagði Heimir Guðjónsson sem var greinilega að vonast eftir að stela sigrinum með marki í uppbótartíma.

Rauðaspjaldið sem Davíð fékk vildi hann ekki ræða og sagði „Það átti sér eitthvað stað þarna út á velli en ég þarf að afla mér upplýsingar um það áður en ég get tjáð mig“.

Þegar að þjálfari Valsmanna, Magnús Gylfason, var spurður út í atvikið svaraði hann „Ég sá ekki almennilega hvað gerðist en það var FH og dómarinn sem lætin snérust um. Þetta var um uppbótartímann og fyrst að þeir voru búnir að jafna hefði ég sjálfur viljað lengri tíma,“

Fjölmiðlafulltrúi FH sagði strax við blaðamenn að Davíð Þór Viðarsson kæmi ekki í viðtal eftir leikinn þegar eftir því var leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×