Fótbolti

Llorente fer í Juventus á næsta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Llorente.
Fernando Llorente. Mynd/Nordic Photos/Getty
Juventus tilkynnti það á heimasíðu sinni í dag að Fernando Llorente, framherji Athletic Bilbao og spænska landsliðsins, verði leikmaður félagsins frá og með næsta tímabili.

Hinn 27 ára gamli Fernando Llorente mun skrifa undir fjögurra ára samning við ítölsku meistarana en samningur hans við Athletic Bilbao rennur út í júní. Samningur hans við Juventus er til júní 2017.

Fernando Llorente hefur verið orðaður við ensku liðin Arsenal, Tottenham og Manchester City en mun spila áfram með Athletic Bilbao þar til að samningur hans rennur út í lok júní.

Fernando Llorente hefur skorað 82 deildarmörk á níu tímabilum með Athletic Bilbao en er þó aðeins með eitt mark í tólf leikjum á þessu tímabili. Hann hefur alls skorað 115 mörk í 312 leikjum með Bilbao í öllum keppnum en hefur ekki náð að vinna titil með félaginu.

Llorente var í heimsmeistaraliði Spánar 2010 og Evrópumeistaraliði Spánar síðasta sumar en hann hefur skorað 7 mörk í 21 landsleik með Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×