Sport

Azarenka vann opna ástralska annað árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victoria Azarenka.
Victoria Azarenka. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hvít-Rússneska tenniskonan Victoria Azarenka varði titil sinn á opna ástralska meistaramótinu í tennis í dag þegar hún vann Li Na frá Kína í þremur settum í úrslitaleiknum.

Li Na vann fyrsta settið 6-4 en varð svo fyrir því að meiðast sem Azarenka nýtti sér vel og vann tvö síðustu settin 6-4 og 6-3.

Li Na meiddist bæði í öðru og þriðja setti en harkaði af sér í bæði skiptin þótt að augljóst var að meiðslin háðu henni mikið.

Azarenka fékk á sig mikla gagnrýni fyrir að taka sér vænt meiðslahlé í undanúrslitaleiknum á móti hinni 19 ára gömlu Sloane Stephens og áhorfendur á vellinum í Melbourne studdu Li Na í úrslitaleiknum.

Sú hvít-rússneska yfirvann hinsvegar allt mótlætið í þessum leik og tryggði sér sigurinn.

Victoria Azarenka er 23 ára gömul og hefur verið undanfarið í efsta sæti heimslistans. Sigrarnir á opna ástralska mótinu eru tveir fyrstu sigrar hennar á risamótum en hún tapaði í úrslitaleik opna bandaríska mótsins í fyrra á móti Serenu Williams frá Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×