Erlent

Filippseyjar gefast upp á viðræðum

Í suður-Kínahafi Filippseyskir fiskveiðibátar halda út á miðin umdeildu.	nordicphotos/AFP
Í suður-Kínahafi Filippseyskir fiskveiðibátar halda út á miðin umdeildu. nordicphotos/AFP
„Filippseyjar hafa reynt til þrautar næstum allar leiðir stjórnmála og milliríkjasamskipta til að komast að friðsamlegu samkomulagi í hafréttardeilum sínum við Kína,“ segir Alberto del Rosario, utanríkisráðherra Filippseyja.

Hann segir sendiráð sitt því hafa kallað kínverska sendiherrann á Filippseyjum á sinn fund og afhent honum tilkynningu þess efnis, að Filippseyjar ætli að vísa deilu ríkjanna til gerðardóms samkvæmt ákvæðum hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Zhang Hua, talsmaður kínverska sendiráðsins, segir að sendiherrann, sem heitir Ma Keqing, hafi svarað með því að „Kína hafi óumdeilanleg yfirráð yfir eyjunum á Suður-Kínahafi og nærliggjandi hafsvæðum“.

Kínverjar hafa ekki tekið neinar efasemdir til greina um yfirráð sín í Suður-Kínahafi. Þvert á móti hafa þeir undanfarin ár og áratugi ítrekað gripið til aðgerða sem hleypt hafa illu blóði í nágrannaríkin. Meðal annars hafa Kínverjar nýlega gefið út ný vegabréf með korti af Kína þar sem Suður-Kínahaf er merkt inn á sem yfirráðasvæði Kína.

Alls gera sex ríki tilkall til mismunandi stórra svæða í Suður-Kínahafi. Vaxandi spenna hefur verið í mörgum þessara deilna undanfarna mánuði, sem hefur vakið ótta um að vopnuð átök geti brotist út.gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×