Handbolti

Höfum engu að tapa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
gunnar berg Ætlar með Stjörnuna upp í N1-deild karla.fréttblaðið/valli
gunnar berg Ætlar með Stjörnuna upp í N1-deild karla.fréttblaðið/valli
Lokaúrslitin í umspilskeppni N1-deildar karla hefjast í Vodafone-höllinni í kvöld en þá mætast Valur og Stjarnan. Það lið sem vinnur fyrst tvo leiki spilar í N1-deild karla á næstu leiktíð.

Valur hafnaði í sjöunda sæti N1-deildarinnar en Stjarnan í öðru sæti 1. deildarinnar. Gunnar Berg Viktorsson, þjálfari Stjörnunnar, segir að vissulega sé nokkur getumunur á liðunum.

„Ef Valsmenn hitta á góðan dag eru þeir með betra lið en við. En við höfum allt að vinna en engu að tapa,“ sagði Gunnar Berg við Fréttablaðið.

Hann segir að liðið hafi stefnt að því eftir áramót að komast upp í N1-deildina. „Við áttum reyndar ekki von á því að þurfa að kljást við jafn sterkt lið og Val í umspilinu. En við höfum verið að skoða þá og það verður gaman að mæta þeim.“

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.30 og verður fylgst með honum í Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins. Liðin mætast svo í Mýrinni á sunnudag og í oddaleik ef þörf krefur á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×