Handbolti

Kom lítið á óvart að fáir hefðu trú á okkur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Framarar hafa spilað frábærlega í Olís-deildinni en liðið hefur unnið þrjá leiki í röð eftir tap í fyrstu umferð. Guðlaugur Arnarsson hefur mikla trú á ungum og efnilegum Safamýrapiltum. Fréttablaðið/daníel
Framarar hafa spilað frábærlega í Olís-deildinni en liðið hefur unnið þrjá leiki í röð eftir tap í fyrstu umferð. Guðlaugur Arnarsson hefur mikla trú á ungum og efnilegum Safamýrapiltum. Fréttablaðið/daníel
Framarar hafa farið vel af stað í Olís-deild karla í handknattleik en liðið hefur nú unnið þrjá leiki í röð eftir tap í fyrstu umferð gegn Akureyri.

Íslandsmeistararnir misstu gríðarlega stóran hluta liðsins fyrir tímabilið og er liðið mikið til byggt upp af ungum og efnilegum heimastrákum.

„Þessi árangur kemur mér í raun ekki mikið á óvart, við höfum mikla trú á því sem við erum að gera,“ segir Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram.

Guðlaugur tók við liðinu fyrir tímabilið af Einari Jónssyni. Hann var með kvennalið KA/Þórs í N1-deild á síðustu leiktíð. Fyrir mótið var Fram spáð næstneðsta sæti deildarinnar af fyrirliðum, þjálfurum og forráðamönnum félaganna.

Enginn hafði trú á okkur

„Það kom manni lítið á óvart að fáir hefðu trú á þessu liði. Við misstum átta leikmenn fyrir þetta tímabil,“ segir Guðlaugur, en Fram varð Íslandsmeistari á síðasta tímabili eftir einvígi gegn Haukum.

Liðin mættust á ný á miðvikudagskvöldið og þá hafði Fram betur, 18-17, í óvæntum heimasigri.

„Það er mikil uppbygging í gangi í Safamýri sem er að byrja alveg frá grunni. Eftir að hafa kynnst strákunum undanfarna mánuði þá veit ég hvað í þeim býr og get alveg farið óhræddur inn í hvern einasta leik til þess að vinna.“

Fyrir tímabilið kom Sveinn Þorgeirsson til Framara frá Haukum og auk hans komu tveir markverðir. Daninn Stephen Nielsen kom til liðsins en hann hefur farið á kostum milli stanganna. Nielsen hefur meðal annars leikið fyrir Drott Halmstad, FCK og Flensburg og er því mikill fengur fyrir þá bláklæddu.

„Við spiluðum saman hjá FCK og þá var hann þriðji markmaður liðsins,“ sagði Guðlaugur um Nielsen, en þjálfarinn lék með danska liðinu tímabilið 2008-09.

Elti íslenska kærustu

„Hann fór ungur út á sínum tíma til Flensburg sem efnilegur markmaður og fékk aldrei tækifæri með aðalliðinu. Hann hefur síðan verið að spila virkilega vel í Svíþjóð og því mikill fengur fyrir okkur. Ástæðan fyrir því að hann er kominn til okkar er sú að hann á íslenska kærustu. Hún er að klára sitt nám hér á landi og þau ákváðu að flytja til landsins.“

Framarar hafa litið vel út á tímabilinu en liðið er nokkuð vel skipað þar sem ungir og graðir leikmenn fá að njóta sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×