Lífið

Rússarnir vitlausir í Berndsen

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Davíð Berndsen, Hermigervill og Keli gítar gefa út nýja plötu sem ber titilinn Planet Earth.
Davíð Berndsen, Hermigervill og Keli gítar gefa út nýja plötu sem ber titilinn Planet Earth. fréttablaðið/gva
„Það er auðvitað gaman þegar fólk er að skoða og hlusta á efnið manns en samt nett leiðinlegt að fá ekki krónu fyrir það,“ segir tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen sem gaf út sína nýjustu plötu í vikunni, ásamt Hermigervli og Kela gítar.

Davíð, Hermigervill, sem heitir réttu nafni Sveinbjörn Thorarensen, og Keli gítar, sem heitir réttu nafni Hrafnkell Gauti Sigurðarson, mynda sveitina Berndsen og er þetta þeirra önnur breiðskífa saman.

Yfir sjö þúsund manns hafa náð í plötuna í Rússlandi með ólöglegum hætti og er hún ein mest sótta platan þar í landi. „Mér brá heldur betur í brún þegar ég sá hversu vitlausir Rússarnir eru í plötuna því ég hef aldrei spilað í Rússlandi,“ segir Davíð.

Nýjasta plata Berndsens ber titilinn Planet Earth en þeir félagar gefa plötuna sjálfir út og fyrirtækið þeirra heitir Jupiter Lovers.

Á plötunni er ort um geiminn, lífið og geimverur. „Við förum aftur í tímann á plötunni, hún einkennir tímabilið 1981 til 1982 en fyrri platan minnti frekar á 1985-tímabilið,“ útskýrir Davíð. Platan er tekin upp í Portúgal, Belgíu, Hollandi og á Íslandi.

Það er ýmislegt framundan hjá Berndsen en þeir koma meðal annars fram á Eurosonic-hátíðinni í Hollandi í janúar og á Sónar í Reykjavík í febrúar. „Við höldum svo líklega formlega útgáfutónleika í janúar,“ bætir Davíð við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×