Sport

Federer úr leik á Wimbledon | Ótrúlegum degi lokið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Afar óvænt tíðindi urðu á Wimbledon-mótinu í tennis í dag er Roger Federer, sjöfaldur meistari á mótinu, féll úr leik eftir að hafa tapað fyrir óþekktum Úkraínumanni í annarri umferð einliðaleiks karla.

Sergiy Stakhovsky, sem er í 116. sæti heimslistans, fagnaði sigri í þremur settum gegn einu. Hann tapaði fyrsta settinu, 7-6, en vann hin þrjú 7-6, 7-5 og 7-6.

Þetta er í fyrsta sinn í átta ár sem Federer tapar fyrir andstæðingi sem er ekki meðal efstu 100 manna á heimslistanum í tennis. Federer hafði einnig komist í fjórðungsúrslit á 36 risamótum í röð, þar til að hann féll úr leik í dag.

Þetta var enn fremur í fyrsta sinn sem Federer tapar viðureign í annarri umferð stórmóts í tennis. Hann hafði unnið 49 slíkar viðureignir í röð.

Federer er þó ekki eina stórstjarnan sem féll úr leik í dag. Maria Sharapova, sem er í þriðja sæti heimslistans, tapaði fyrir Michelle Larcher de Brito frá Portúgal, sem er í 131. sæti heimslistans, í tveimur settum, 6-4 og 6-3.

Þá þurftu alls sjö keppendur að draga sig úr keppni vegna meiðsla í dag en meðal þeirra er Jo-Wilfried Tsonga (6. sæti í karlaflokki) og Victoria Azarenka (2. sæti í kvennaflokki). Belginn Steve Darcis hætti einnig vegna meiðsla en hann vann Rafael Nadal í fyrstu umferð mótsins.

Heimamaðurinn Andy Murray er þó kominn áfram eftir öruggan sigur á Lu Yen-hsun frá Taipei. Novak Djokovic er einnig kominn áfram í þriðju umferðina en Djokovic og Murray eru í efstu tveimur sætum heimslistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×