Lífið

Óli Geir segist vera á svörtum lista hjá ÍTR

Tinna Rós Steinsdóttir skrifar
Ólafur Geir segist ekki fá að spila í félagsmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Ólafur Geir segist ekki fá að spila í félagsmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Fréttablaðið/Anton
„Ég fór á svartan lista hjá ÍTR (Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur) fyrir tæpum tveimur árum og virðist ekkert ætla að losna af honum, sama hvað ég geri,“ segir tónleikahaldarinn og plötusnúðurinn Ólafur Geir Jónsson.

Fréttablaðinu hefur borist afrit af bréfi sem Ólafur Geir sendi á allar félagsmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu þann 13. nóvember síðastliðinn. Þar fór hann þess á leit við viðtakendur bréfanna að fá aftur að halda böll fyrir nemendur 8. til 10. bekkjar, en hann hafði verið útilokaður frá slíkum böllum ári áður þar sem hann þótti ekki nógu góð fyrirmynd. „Þegar ég var útilokaður úr félagsmiðstöðvunum fór ég að halda mín eigin böll fyrir þennan aldurshóp á Nasa. Þau voru mjög vinsæl og alltaf uppselt, þar til skyndilega að ég hætti að fá leyfi fyrir þeim,“ segir Ólafur Geir og bætir við að hann hafi fengið þau skilaboð að ekki væri við hæfi að halda böll fyrir þennan aldurshóp á stað með vínveitingaleyfi. Hann ákvað í kjölfarið að slá upp balli í íþróttahúsi, eins og tíðkast hjá SAMFÉS (Samtökum félagsmiðstöðva á Íslandi) en fékk þá heldur ekki leyfi og segist engar skýringar hafa fengið á því.

Ólafur Geir segir þessa umræðu um slæma fyrirmynd eiga rætur sínar að rekja til þess þegar hann hélt hin frægu „Dirty night“-kvöld fyrir fáum árum, meðal annars í Kópavogi og á Akureyri, sem mörgum þóttu of djörf og jafnvel jaðra við lögbrot vegna nektar og annarrar framkomu starfsfólks og gesta. Ólafur Geir segist nú hættur að halda slík kvöld, hann leggi mikla vinnu í að bæta ímynd sína og vandi sig við það sem hann geri. Til að mynda sé hann aðalskipuleggjandi Keflavík Music Festival, tónlistahátíðar sem haldin verður í sumar, þangað sem von er á fjölda vinsæls tónlistarfólks. „Ég var einu sinni afbókaður daginn fyrir ball og sá sem var ráðinn í staðinn hafði losnað úr meðferð þann sama dag. Þú getur verið fyrirmynd á ýmsum sviðum. Ég dópa ekki og stunda íþróttir af kappi. En samt þyki ég verri fyrirmynd,“ segir hann.

Ólafur Geir er iðinn við margs konar viðburðahald. Hann hefur nú nýlokið við plötusnúðatúr þar sem hann heimsótti félagsmiðstöðvar víðsvegar um landið, en þó ekki á Reykjavíkursvæðinu. Ólafur segist engin svör hafa fengið við fyrrnefndu bréfi til félagsmiðstöðva og svo virðist sem tölvupóstfangið hans sé á svörtum lista hjá ÍTR. „Ég fékk póstana alltaf endursenda frá öllum sem ég sendi á innan ÍTR, svo þegar ég prófaði að senda frá öðru netfangi þá skiluðu póstarnir sér, sem er mjög dularfullt,“ segir Ólafur Geir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.