Enski boltinn

Hver tekur við af Ferguson?

Margir stuðningsmenn Man. Utd vilja sjá Mourinho taka við af Ferguson.
Margir stuðningsmenn Man. Utd vilja sjá Mourinho taka við af Ferguson.
Þar sem Sir Alex Ferguson ætlar að stíga niður úr brúnni hjá Man. Utd eru menn eðlilega byrjaðir að velta því fyrir sér hver muni taka að sér hið erfiða hlutverk að fylla skarð Ferguson sem er að margra mati ómögulegt verkefni.

Tvö nöfn eru helst upp á borði í dag. Það eru Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, og David Moyes, stjóri Everton.

Það hefur legið í loftinu í talsverðan tíma að Mourinho færi frá Real Madrid. Hefur hann verið þráfaldlega orðaður við endurkomu til Chelsea og sjálfur hefur hann gefið því undir fótinn að hann væri á leið til Englands.

Nú velta menn því fyrir sér hvenær ákvörðun Ferguson um að hætta hafi raunverulega legið fyrir og hvort það hafi verið gert samkomulag við Mourinho fyrir nokkru síðan. Menn hafi síðan notað stöðuna hjá Chelsea til þess að slá ryki í augu áhugasamra.

Það eru nokkur ár síðan byrjað var að ræða um að Mourinho væri líklega eini stjórinn sem væri nógu stórt nafn til þess að taka við af Ferguson. Portúgalinn er mikill vinur Ferguson, ber mikla virðingu fyrir honum og leggur sig fram við að hrósa honum.

Það þyrfti því ekki að koma á óvart ef Mourinho kæmi á Old Trafford. Helsta vandamál Mourinho er aftur á móti að hann hefur ekki enst lengi í starfi. Hann nær árangri en skiptir iðulega um félag.

David Moyes er ekki þannig. Hann er búinn að vera hjá Everton síðan 2002 og þykir hafa náð aðdáunarverðum árangri í starfi. Hann hefur margsannað að hann er klókur stjóri.

Veðbankar eru með Moyes efstan á blaði í dag. Hann er Skoti eins og Ferguson, kann vel þá list að vinna vel með leikmönnum sínum og ná því besta út úr þeim. Þarf því ekki að koma á óvart að United horfi hýru auga til hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×