Fótbolti

Blatter vill innleiða notkun myndbanda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blatter ásamt lukkudýri HM 2014.
Blatter ásamt lukkudýri HM 2014. Vísir/Getty
Sepp Blatter, forseti FIFA, sagðist á Soccerex ráðstefnunni í Manchester vilja innleiða notkun myndbanda til að skera úr um réttmæti ákvarðana dómara. Blatter vill að hvor þjálfari fái a.m.k. einu sinni í hálfleik að skoða ákvörðun dómara á myndbandi.

„Þeir fá tækifæri einu sinni eða tvisvar í hálfleik til að véfengja ákvörðun dómarans, en aðeins þegar boltinn er úr leik“ sagði Blatter.

„Dómarinn og þjálfarinn munu líta á atvikið á sjónvarpsskjá. Dómarinn getur síðan breytt ákvörðun sinni eins og t.d. í tennis,“ bætti Blatter við, en hann sagði jafnframt að mögulega yrði þessi breyting prufukeyrð á HM U-20 ára í Nýja-Sjálandi á næsta ári.

Blatter tilkynnti í dag að hann myndi bjóða sig fram til endurkjörs sem forseti FIFA. Hann hefur setið á forsetastóli frá árinu 1998. Verði hann kjörinn í júní á næsta ári mun hann sitja sitt fimmta kjörtímabil.

Fresturinn til að bjóða sig fram rennur út í janúar 2015, en Frakkinn Michel Platini, forseti UEFA, gaf það nýlega út að hann myndi ekki fara fram gegn Blatter á næsta ári.

Fimm af sex heimsálfum, sem eiga aðild að FIFA, hafa þegar lýst yfir stuðningi sínum við Blatter, en Evrópa er sú eina sem er mótfallin Svisslendingnum umdeilda.


Tengdar fréttir

Geir: Held að menn ofmeti áhrif mín hjá UEFA

Það virðist ekkert geta komið í veg fyrir að hinn 78 ára gamli Sepp Blatter stýri FIFA til ársins 2019. UEFA mun ekki senda frambjóðanda gegn Blatter á næsta ári. Þó að Blatter sé umdeildur hefur hann hreðjatak á hreyfingunni.

Platini fer ekki fram gegn Blatter

Michel Platini, forseti UEFA (Evrópska knattspyrnusambandsins), mun ekki bjóða sig fram gegn sitjandi forseta FIFA, Sepp Blatter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×