Fótbolti

Zidane dæmdur í þriggja mánaða bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane og Carlo Ancelotti.
Zinedine Zidane og Carlo Ancelotti. Vísir/Getty
Franska fótboltagoðsögnin Zinedine Zidane er farinn að þjálfa hjá Real Madrid en það byrjar ekki vel því kappinn hefur verið dæmdur í þriggja mánaða bann af spænska knattspyrnusambandinu.

Ástæða bannsins hjá Zidane er að hann var ekki kominn með nauðsynleg réttindi þegar hann stýrði varaliði Real Madrid, Real Madrid Castilla. Auk Zidane var aðstoðarmaður hans, Santiago Sanchez, einnig dæmdur í þriggja mánaða bann.

Forráðamenn Real Madrid eru mjög ósáttir við úrskurðinn og ætla að berjast gegn honum en þeir telja að Zidane sé með öll nauðsynleg leyfi frá franska knattspyrnusambandinu.

Zinedine Zidane lék í fimm ár með Real Madrid eftir að hafa verið keyptur á metfé frá Juventus.

Zidane var þrisvar kosinn besti knattspyrnumaður heims (1998, 2000 og 2003) en hann varð heimsmeistari með Frökkum 1998 og vann Meistaradeildina með Real Madrid 2002 þar sem hann skoraði sigurmarkið í úrslitaleiknum.

Síðasti fótboltaleikur hans á ferlinum var sögulegur en hann var þá rekinn af velli fyrir að skalla Ítalann Marco Materazzi í brjóstkassann í úrslitaleiknum á Hm 2006.

Zidane vann fyrst sem ráðgjafi Florentino Perez, forseta Real Madrid, en var síðan ráðinn íþróttastjóri hjá félaginu árið 2011. Hann tók síðan við varaliðinu fyrir þetta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×