Enski boltinn

Ítali ráðinn þjálfari kvennalandsliðsins í blaki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Capriotti mætir á bikarhelgina til að sjá stelpurnar.
Capriotti mætir á bikarhelgina til að sjá stelpurnar. Vísir/Stefán
Daniele Mario Capriotti, 42 ára gamall Ítali, hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari kvenna í blaki en samningurinn er til tveggja ára.

Frá þessu er greint á vef blaksambands Íslands en Capriotti hefur um 20 ára reynslu af þjálfun á Ítalíu og starfar sem tæknilegur ráðgjafi blakliða í B-deildinni þar í landi.

Hann hefur einnig mikla reynslu af þjálfun ungmenna og á marga titla að baki á þeim vettvangi, að því fram kemur á vef BLÍ. Capriotti er með hæstu þjálfaragráðu sem veitt er á Ítalíu og hefur kennt á fjölda námskeiða fyrir ítalska blaksambandið

Samningar náðust milli BLÍ og Capriotti um liðna helgi og mun hann koma til Íslands um bikarhelgina 15.-16. mars nk. til að skoða leikmenn fyrir landsliðið. Verkefni landsliðsins á þessu ári er undankeppni EM smáþjóða í Laugardalshöll 6.-8. júní og er ljóst að ærið verkefni bíður hans í vor.

„Það ríkir mikil ánægja með ráðningu Capriotti. Við teljum að þetta endurspegli metnað okkar fyrir hönd landsliðanna og við bindum mikla vonir við hans störf. Innan tíðar munum við greina frá ráðningu þjálfara fyrir karlaliðið en þau mál eru langt komin,“ segir StefánJóhannesson, formaður landsliðsnefndar BLÍ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×