Tónlist

Kom fram á milli tveggja goðsagna

Ólöf Skaftadóttir skrifar
„Þetta var ótrúlega mikill heiður að fá að spila á tónleikum með svona stórum nöfnum,“ segir Karin Sveinsdóttir, söngkona sveitarinnar Highlands, sem hún skipar ásamt Loga Pedro Stefánssyni, en þau spiluðu á Stopp – Gætum garðsins tónleikunum í Hörpu á þriðjudag.

Highlands komu fram á eftir Björk og áður en Patti Smith steig á svið. „Þetta voru bara þriðju tónleikarnir okkar þannig að það var stress að vera að spila þarna mitt á milli Bjarkar og Patti Smith, en það gekk vel. Þessir tónleikar voru þeir stærstu sem við höfum spilað á,“ segir Karin jafnframt og heldur áfram.

„Þeir voru frábærir rétt eins og önnur gigg sem við höfum verið á, við skemmtum okkur alltaf jafn vel.“

Á tónleikunum kom fjöldinn allur af listamönnum fram, ásamt Patti Smith og Björk, komu fram Lykke Li, Retro Stefson, Of Monsters and Men, Samaris, Mammút og Highlands. Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd stóðu fyrir tónleikunum, en allir listamenn gáfu vinnu sína.

Highlands spilar í Fönkþættinum á X-inu í dag og spilar svo á Ak extreme fyrstu helgina í apríl.

„Við erum líka alltaf að vinna í nýrri tónlist þannig það er alveg nóg að gera,“ segir hún.

Fyrsta smáskífa Highlands kom út á þessu ári, en tónlistarveitan iTunes í Bandaríkjunum mælti með henni á dögunum.

„Við höfum fengið gríðarlega góðar viðtökur og það er ekkert nema gaman að iTunes mæli með tónlistinni okkar.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.