Íslenska karlalandsliðið hækkaði sig um sex sæti á styrkleikalista FIFA en nýr listi var gefinn út í morgun. Ísland er nú í 28. sæti listans og hefur aldrei verið ofar á listanum.
Íslenska landsliðið náði nú sínum besta árangri annað mánuðinn í röð en liðið fór upp um tólf sæti á septemberlistanum og komst þá alla leið upp í 34. sæti.
Fyrir þessa tvo metmánuði hafði íslenska landsliðið komist hæst í 38. sæti á listanum sem var gefinn út í júní 1994.
Ísland hefur með þessu hækkað sig um heil 17 sæti frá listanum sem var gefinn út í ágúst síðastliðnum og er nú efst á FIFA-listanum af öllum Norðurlandaþjóðunum.
Í apríl 2012 var íslenska landsliðið í 131. sæti, lægstu stöðu frá upphafi, eftir töp gegn Japan og Svartfjallalandi í fyrstu leikjum Lars Lagerbäcks með liðið. Það var þá í 47. sæti af Evrópuþjóðunum 53.
Það hefur nú hækkað um 103 sæti síðan þá sem er ævintýralegur árangur á ekki skemmri tíma en raun ber vitni. Það tók Lars, Heimi og strákana okkar aðeins tvö og hálft ár að fara úr 131. sæti og upp í það 28.
Ísland er fjórum sætum ofar en Danmörk (32.sæti) en Danir voru efsta Norðurlandaþjóðin á listanum fyrir mánuði síðan en falla nú niður um þrjú sæti.
Svíar detta líka niður á listanum en sænska landsliðið er nú í 39. sæti, sjö sætum neðar en á síðasta lista.
Sigur Íslands á Hollandi vegur þungt en Holland var í 4. sæti á listanum fyrir mánuði síðan. Hollenska liðið dettur niður í fimmta sæti þökk sé tapinu á Laugardalsvellinum.
Besta fótboltalandsliðið á Norðurlöndum
(Staða þjóða á FIFA-listanum 23. október 2014)
28. sæti Ísland
32. sæti Danmörk
39. sæti Svíþjóð
63. sæti Finnland
68. sæti Noregur
Ísland á besta fótboltalandsliðið á Norðurlöndum
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið

„Hann hefði getað fótbrotið mig“
Enski boltinn


VAR í Bestu deildina?
Íslenski boltinn

Howe lagður inn á spítala og missir af leiknum
Enski boltinn





