Íslenski boltinn

Pepsi-mörkin: „Óli fann upp knattspyrnuna hérna heima"

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Magnússon og félagar fóru yfir leik Keflavíkur og Breiðabliks í Pepsi-mörkunum í gær en Keflvíkingar fögnuðu þar sigri á móti Blikum sem hafa aðeins náð í eitt stig út úr fyrstu þremur leikjum sínum.

Hörður ræddi leikinn og úrslitin við þá Hjörvar Hafliðason og Þorvald Örlygsson sem voru spekingar Pepsi-markanna í gær. Gengi Breiðabliks var mikið til umræðu í innslaginu um Keflavík.

„Ég ætla ekki að segja að það sé krísa af því að þeir eru búnir að spila við tvö bestu liðin í fyrstu þremur leikjunum en þeir hafa ekki skapað sér neitt. Þetta lítur ekkert sérstaklega út," sagði Hjörvar Hafliðason um byrjun Breiðabliksliðsins.

„Við erum alltaf búnir að vera að tala um Blikana í gegnum árin, flinka efnilega stráka en menn vilja náttúrulega fá lið og gott lið. Við viljum fá gott Blikalið en ekki vera endalaust að tala um þá sem unga og efnilega," sagði Þorvaldur Örlygsson og bætti við:

„Mér finnst aðferðafræðin og pælingin hjá þeim vera svolítið sérstök. Óli er að fara út og af hverju tók Óli ekki frí og einhverjir aðrir tóku við?  Hann hefði þá getað hvílt sig og verið tilbúinn í næsta starf. Hann er búinn að gera gott starf þarna og eins og ég hef sagt þá fann hann upp knattspyrnuna hérna heima og við höfum fengið að taka þátt í henni annað slagið," sagði Þorvaldur meðal annars um Ólaf Kristjánsson, þjálfara Breiðabliks, en það má sjá alla umræðuna hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×