Lífið

Ræddi ekki fósturmissi af ótta við vorkunn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Urður Hákonardóttir.
Urður Hákonardóttir. Vísir/Vilhelm
„Ég varð ólétt og var í raun ekki tilbúin til þess á þeim tíma,“ segir tónlistarkonan Urður Hákonardóttir í opinskáu viðtali við Lífið. Urður fer um víðan völl í viðtalinu. Hún rifjar upp þegar hún var greind með ADHD á unglingsárunum og hvernig það breytti lífi hennar til hins betra.

Árin með Gus Gus voru ævintýri en hún yfirgaf svo sveitina áramótin 2007 til 2008. Í dag er hún stödd á tímamótum og er að endurskoða hvað hún vilji gera í lífinu. Fyrir rúmlega ári hafi hún orðið ólétt en hún var ekki tilbúin í það.

„Ég var búin að vera rosalega veik á meðgöngunni og þegar ég var komin rúmlega þrjá mánuði á leið fór ég í sónar. Þá kom í ljós að barnið var dáið,“ segir Urður. Hún segist ekki vita hvort hafi verið erfiðara, að missa barnið eða bara allt í kringum veikindin.

„Það tók alveg tíma að jafna sig á því. Ég fór ekki strax í það aftur að reyna að eignast börn, ég var ekki þar.“

Urður segir að sér hafi fundist það mikið tabú að ræða um málið. Það hafi þó komið henni á óvart hversu margar konur hafi lent í því sama en segi ekki frá.

„Margar af mínum nánu vinkonum höfðu lent í þessu sama og ég vissi ekki af því fyrr ég lenti í þessu sjálf og þær fóru að opna sig. Upplifunin var þannig að ég vildi ekki ræða þetta því þá myndi fólk vorkenna mér og ég vildi helst hlífa fólki við því. Ég vildi ekki koma fólki í óþægilega stöðu að tala um þennan missi því þetta er óþægilegt umræðuefni fyrir alla og kemur fólki í opna skjöldu.“

Tónlistarkonan segir fólk bregðast mismunandi við aðstæðum sem þessum.

„Fyrir mig var þetta kannski ekki eins hræðilegt og fyrir næstu konu sem hugsanlega er búin að vera að reyna lengi að eignast barn. Ég var ágætlega sterk fyrir þessa reynslu en hún undirstrikar bara það að maður hefur svo sem ekki mikla stjórn á lífinu,“ segir Urður. Maður sé alltaf að reyna að hafa allt á hreinu, þar á meðal hluti sem maður hafi enga stjórn á.

„Maður verður bara að gangast við því hvernig lífið fer og leyfa því að gerast og treysta því. Það er kannski lærdómurinn í þessu öllu saman.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.