Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær að bráð nauðsyn væri á að stöðva þyrfti ofbeldið á Gasasvæðinu. Þessu yrði að linna, í nafni mannúðar. Hann sakaði Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Khaled Mashaal, leiðtoga Hamas-samtakanna, um að vera óábyrgir og siðferðislega á rangri braut fyrir að láta sitt eigið fólk deyja.
En, engan bilbug er hins vegar að finna á leiðtogunum sem deila þrátt fyrir ákall Ban Ki-moon og ítrekaðar áskoranir leiðtoga hinna vestrænu ríkja. Netanjahú lætur þetta sem vind um eyru þjóta óg í morgun varaði hann við því að átökin kunni líkast til að dragast á langinn; þeim muni ekki ljúka fyrr en Ísraelsmönnum takist að ganga á milli bols og höfuðs öllu því sem tengist hernaði í ranni Hamas-samtakanna. Þetta kom fram í sjónvarpsávarpi þar sem Netanjahú ávarpaði ísraelsku þjóðina, en BBC greindi frá þessu nú fyrir skömmu. Áður hefur hann sagt að ekkert stríð sé eins „réttlætanlegt“ og þetta.
Í kjölfarið fylgdu svo harðari sprengjuárásir á Gasa en nokkru sinni, af lofti, láði og legi; sextíu talsins þar sem skotmörkin voru sjónvarps- og útvarpsstöðvar sem tengjast Hamas. Að minnsta kosti 60 manns voru drepnir, að sögn palestínskra yfirvalda. Miklir eldar loga nú við eina raforkuver svæðisins.
Umsátrið mun dragast á langinn
Jakob Bjarnar skrifar
