Viðskipti innlent

Marple-málið: Frávísunarkröfum hafnað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá vinstri: Skúli Þorvaldsson, Magnús Guðmundsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Guðný Arna Sveinsdóttir.
Frá vinstri: Skúli Þorvaldsson, Magnús Guðmundsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Guðný Arna Sveinsdóttir.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag frávísunarkröfum verjenda í Marple-málinu svokallaða. Lagðar voru fram tvær kröfur um frávísun málsins frá dómi í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku.

Það var annars vegar Skúli Þorvaldsson fjárfestir sem fór fram á að málinu yrði vísað frá en hann segist ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar. Þá voru það fjögur félög tengd Skúla sem bera því við að ekki hafi verið sýnt fram á lögsögu yfir þeim á Íslandi. Fyrirtækin eru skráð í Lúxemborg og á Möltu en ákæran á hendur þeim snýr að upptöku eigna sem saksóknari segir vera ágóða brotanna.

Sérstakur saksóknari höfðar málið sem snýst um viðskipti félags eða félaga Skúla við Kaupþing á Íslandi og í Lúxemborg, en Skúli var einn helsti viðskiptavinur bankans. Þá eru þrír fyrrverandi stjórnendur bankans einnig ákærðir, þau Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri, Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg.


Tengdar fréttir

Ákærðu í Marple-máli gætu átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi

Sú háttsemi sem fyrrverandi stjórnendum Kaupþings og Kaupþings í Lúxemborg er gefið að sök í nýrri ákæru vegna fjárdráttar, miðaði að því að færa um 8 milljarða króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple í eigu Skúla Þorvaldssonar án þess að lögmætar viðskiptalegar ástæður lægju þar að baki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×