Innlent

Áhöfn Helgu Maríu AK ósátt við aðgerðir lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/HB Grandi
Áhafnarmeðlimir um borð í Helgu Maríu AK eru mjög ósáttir við vinnubrögð lögreglu og tollgæslunnar við tvær leitar sem framkvæmdar voru um borð í skipinu. Fyrst var leitað um borð í skipinuu snemma í desember þegar skipinu var siglt til Íslands eftir breytingar í Póllandi. Seinni leitin var framkvæmd þann 9. desember og í báðum leitunum var notast við hunda.

Eiríkur Ragnarsson.
„Ég var þeim innan handar við leitirnar í skipinu, enda er ekkert sem ég hefði viljað frekar, ef eiturlyf væru um borð, að þau myndu finnast. Ég sýndi þeim teikningar og benti á hvar hægt væri að leita. Það er ekkert sem ég hefði viljað frekar, ef að eiturlyf væru um borð, að þau hefðu fundist. Það fundust engin eiturlyf. Það fundust einhverjar flöskur og menn voru sektaðir fyrir það eins og gengur og gerist,“ segir Eiríkur Ragnarsson, skipstjóri.

Tveir áhafnarmeðlimir voru handteknir í aðgerðunum. „Við erum ósáttir, útgerðin er ósátt. Það eru allir ósáttir. Þeir fóru heim til annars áhafnarmeðlimsins sem var handtekinn, fjölskyldumanns sem aldrei hefur verið bendlaður við neitt ólöglegt, og þar leituðu tólf lögreglumenn og tveir hundar og öllu var rústað. Hann var handtekinn og dreginn út í járnum fyrir framan fjölskyldu sína og nágranna. Við yfirheyrslur var honum sagt að lögreglunni hefði borist tilkynning um að hann væri að smygla tveimur kílóum af kókaíni.“

„Svo köfuðu þeir undir skipið og ég veit ekki hvað og hvað. Ég held það sé búið að eyða milljónum í þetta. Það sem mér finnst skrítið er að þetta hlýtur að vera mjög greinagóð ábending, miðað við umfangið. Mér skilst að rannsókninni sé að ljúka og þá hlýtur að vera hægt að rannsaka þetta og kanna hvaðan þessi tilkynning kom,“ segir Eiríkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×