Þingmenn í Kænugarði í Úkraínu koma saman í dag á sérstökum fundi en þar er búist við því að kosið verði um hvort fella beri ný lög sem bönnuðu mótmæli í landinu, úr gildi.
Óróinn í landinu jókst til muna eftir að lögin voru sett en þeim var ætlað að stemma stigu við vaxandi óánægju með stjórn Yanukovych forseta. Forsetinn hefur nú boðist til að nema þau úr gildi en óljóst er hvort hann njóti stuðnings þingmanna til þess.
Forsetinn bauðst til að aflétta lögunum gegn því að mótmælendur tækju niður götuvígin sem hafa verið reist í mörgum borgum landsins og færu út úr opinberum byggingum sem þeir hafa nú á valdi sínu. Andófsmennirnir hafa enn ekki sýnt nein merki um að þeir ætli að verða við þeirri bón.
Kosið á ný um umdeild lög í Úkraínu
