Innlent

Leghálskrabbameinsleit lækkaði dánartíðni um 91 prósent

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Markmiðið með leitinni segja Reynir Tómas og Kristján að sé aðallega að greina alvarlegar forstigsbreytingar og í minna mæli að greina byrjunarstig krabbameins.
Markmiðið með leitinni segja Reynir Tómas og Kristján að sé aðallega að greina alvarlegar forstigsbreytingar og í minna mæli að greina byrjunarstig krabbameins. VÍSIR/VILHELM
Tíðni leghálskrabbameins meðal kvenna 26 ára og yngri hefur meira en tvöfaldast frá því árið 1988. Á árunum 1964 voru tilfellin 11 en 24 á tímabilinu 1989 til 2012.

Á sama tíma fjórfaldaðist hlutfall þeirra sem greindust með sjúkdóminn á byrjunarstigi úr fjórum tilfellum í 16. Þetta kemur fram í grein læknanna Kristjáns Sigurðssonar og Reynis Tómasar Geirssonar, Breytt skipulag leghálskrabbameinsleitar.

Í greininni segir að þessar niðurstöður mæli því gegn hækkun neðri aldursmarka leitar. En eins og fram hefur komið á Vísi verður skimun fyrir leghálskrabbamein framvegis fyrir konur á aldrinum 23 til 65 ára í stað 20 til 69 ára. Jafnframt var gerð sú breyting að í stað þess að konur fari í leit annað hvert ár verða þær boðaðar til leitar á þriggja ára fresti.

Um áramótin síðustu tók í gildi nýr þjónustusamningur milli Krabbameinsfélags Íslands við Sjúkratryggingar Íslands sem felur þetta meðal annars í sér.

91 prósent lækkun á dánartíðni 

Bólusetning 12 ára stúlkna gegn HPV há-áhættusmiti hófst á Íslandi árið 2012. Í grein þeirra Kristjáns og Reynis Tómasar segir að þó erlendar og íslenskar rannsóknir gefi til kynna að vænta megi góðs árangurs af þeirri forvarnaraðgerð er vörnin sem í því felst ekki fullkomin. Tíminn sem þarf til að meta árangur bólusetningar er einn til tveir áratugir.

Markmiðið með leitinni sé aðallega að greina alvarlegar forstigsbreytingar og í minna mæli að greina byrjunarstig krabbameins. Í sumar verði 50 ár síðan skipuleg leighálskrabbameinsleit hófst hér á landi.

Leitin hafi í heild leitt til 67 prósent lækkunar á nýgengi og 91 prósenta lækkunar á dánartíðni af völdum leghálskrabbameins.

Ávinningurinn fyrir íslenskt samfélag sé því augljós. 


Tengdar fréttir

Konur sjaldnar í skimun vegna leghálskrabbameins

Skimun fyrir leghálskrabbameini verður framvegis fyrir konur á aldrinum 23 ára til 65 ára í stað 20 ára til 69 ára eins og verið hefur. Jafnframt var gerð sú breyting að í stað þess að konur fari í leit annað hvert ár verða þær boðaðar til leitar á þriggja ára fresti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×