Erlent

Vilja draga Kim Jong-Un fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Jóhannes Stefánsson skrifar
Kim Jong-Un og félagar í verkamannaflokk Norður-Kóreu berja íbúa landsins til hlýðni.
Kim Jong-Un og félagar í verkamannaflokk Norður-Kóreu berja íbúa landsins til hlýðni.
Mannréttindanefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sakar stjórnvöld í Norður-Kóreu um pyntingar, nauðganir, skipulagðar útrýmingar fólks og fleiri alvarlega glæpi gegn mannkyni í nýrri skýrslu.

Nefndin leggur til að æðstu stjórnendur ríkisins verði dregnir fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólinn.

Þungar sakir eru bornar á valdhafa í landinu. Þeim er gefið að sök að hefta fullkomlega frelsi fólks til hugsana, tjáningar og trúarskoðana. Fólki er frá vöggu til grafar innrætt skoðun á valdhöfum landsins sem jaðrar við trúarlegt innræti. Tilgangurinn er að tryggja algjöra undirgefni við stjórnvöld í landinu.

Fylgjast með öllum þáttum daglegs lífs

Stjórnvöld í landinu fylgjast nánast með hverju skrefi fólks á öllum aldri og neita þegnum sínum um upplýsingar frá óháðum uppsprettum.

Þá er fólki mismunað á víðtækum grundvelli, en þessi mismunun hefur þó verið á ákveðnu undanhaldi eftir aukna markaðsvæðingu í Norður-Kóreu. Markaðsvæðingin hefur leitt til þess að margir njóta nú aukinna efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda.

Nota aðgang að matvælum til að þvinga fólk til hlýðni

Norður-Kóresk stjórnvöld nota aðgang að matvælum til þess að umbuna fólki eftir því hversu mikilvægt það er talið til að viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi.

Þetta hefur leitt til þess að hundruðir þúsunda hafa látist úr hungri, þó að ástandið hafi skánað á seinustu árum.

Þá eru menn gjarnan látnir sitja í fangabúðum svo árum skiptir verði þeir uppvísir að því að hafa pólitískar skoðanir sem talið er að geti ógnað stjórnvöldum.

BBC greinir frá.

Hér fyrir neðan má sjá nýja fréttaskýringu Frontline um ástandið í Norður-Kóreu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×