Erlent

Kafarar fundust eftir þriggja daga barning

Stefán Ó. Jónsson skrifar
MYND/AFP
Fimm japanskir kafarar fundust í dag á lífi eftir að hafa verið týndir undan ströndum Bali í Indónesíu í þrjá sólarhringa.

Sjómenn fundu kafarana um 20 kílómetrum frá hafsvæðinu þar sem þeir höfðu kafað á föstudaginn síðastliðinn. Mikið óveður hefur geisað  á svæðinu undanfarið og er það talin ástæða þess að þá rak jafn langt og raun bar vitni.



Kafararnir ríghéldu í stórt kóralrif þegar sjómennirnir komu að þeim en straumarnir voru of sterkir til þess að bátur sjómannanna gæti náð til þeirra og því var kallað til þyrlu.



Alls lögðu sjö kafarar af stað í leiðangurinn en hvorki tangur né tetur hefur enn sést til tveggja þeirra. Allir kafararnir voru reyndir og höfðu kafað oftar en 50 sinnum.



Um 100 manns hafa komið að leitinni fram til þessa.

Frekar má glöggva sig á málavöxtum á vef Daily Mail um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×