Innlent

Stjórnin hvetur heilbrigðisyfirvöld til að hefja mælingar sem fyrst

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stjórn Krabbameinsfélags Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna breytinga á skipulagi leitar að leghálskrabbameini.
Stjórn Krabbameinsfélags Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna breytinga á skipulagi leitar að leghálskrabbameini. visir/vilhelm
Stjórn Krabbameinsfélags Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna breytinga á skipulagi leitar að leghálskrabbameini en breytingarnar hafa verið í umræðunni undanfarna daga.

Á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins fer fram skipulögð leit að krabbameini í leghálsi og brjóstum kvenna. Aldursmörkum leitar vegna leghálskrabbameins var nýlega breytt. Í stað þess að hefja leitina við 20 ára aldur byrjar hún nú við 23 ára aldur og er gerð á þriggja ára fresti þar til konurnar verða 65 ára en þetta kemur fram í yfirlýsingunni frá félaginu.

Í Bandaríkjunum er mælt með að leit hefjist við 21 árs aldur og sé á þriggja ára fresti til 65 ára. Í Danmörku og Svíþjóð hefst leitin við 23 ára aldur, er á þriggja ára fresti til 50 ára og síðan á fimm ára fresti til 65 ára í Danmörku en 60 ára í Svíþjóð. Í Noregi hefst leitin við 25 ára aldur og lýkur þegar konurnar eru 69 ára.

Í bandarísku leiðbeiningunum er sérstaklega getið um að hjá unglingsstúlkum og ungum konum finnist oft töluvert af frumubreytingum sem geti leitt til ónauðsynlegrar hræðslu kvennanna og ofmeðhöndlunar og þess vegna er mælt með bólusetningum gegn HPV-veirum meðal unglingsstúlkna. Á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð og Noregi er öllum unglingsstúlkum boðin bólusetning gegn HPV-veirum.

Stjórn Krabbameinsfélags Íslands treystir Kristjáni Oddssyni, yfirlækni leitarsviðs félagsins, fullkomlega til að framfylgja samningi félagsins við heilbrigðisyfirvöld um krabbameinsleit. Stjórnin hvetur heilbrigðisyfirvöld til að stuðla að því að hafin verði mæling á HPV-veirum í sýnum frá leghálsi sem fyrst til að gera leitina enn hnitmiðaðri. Konur eru eindregið hvattar til að færa sér í nyt boð um að koma í krabbameinsleit sem er heilsuvernd sem skilar árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×