Innlent

„Ekki hlutverk ríkisins að standa í rekstri áburðarverksmiðju“

Svavar Hávarðsson skrifar
Áburðarverksmiðjan framleiddi um 60.000 tonn á innanlandsmarkað, en nýjar hugmyndir gera ráð fyrir 700.000 tonna verksmiðju.
Áburðarverksmiðjan framleiddi um 60.000 tonn á innanlandsmarkað, en nýjar hugmyndir gera ráð fyrir 700.000 tonna verksmiðju. Fréttablaðið/Pjetur
„Þetta er ekki kolanáma,“ segir Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, um gagnrýni á hugmyndir Framsóknarflokksins um að ríkistjórnin kanni möguleika á því að 700.000 tonna áburðarverksmiðja verði reist í Helguvík eða Þorlákshöfn.

Ragnheiði Elíni Árnadóttur, iðnaðarráðherra, hugnast ekki hugmyndin eins og hún er fram sett í þingsályktunartillögu sem lögð var fram á fimmtudag.

Þorsteinn segir hugmyndina snúast um hagkvæmniathugun, en í henni sé ekki sérstaklega gert ráð fyrir því að ríkið eigi verksmiðjuna og reki hana til framtíðar. Þorsteinn persónulega er hins vegar þeirrar skoðunar að ekkert mæli á móti því að ríkið leiði hóp fjárfesta til að reisa áburðarverksmiðju. „Þegar þjóðfélag er að koma út úr kreppu er ekkert sem mælir á móti því að ríkið taki forystu um svona verkefni ef niðurstaðan er að það sé hagkvæmt.“ Ef allar forsendur reynast hagfelldar telur Þorsteinn ekki fjarri lagi að ríkið ætti 20% hlut í verkefninu sem síðar yrði boðinn fjárfestum.

Fréttablaðið leitaði álits iðnaðarráðherra í gær, og spurði hvort tillagan félli að hennar hugmyndum um uppbyggingu í atvinnulífinu. „Ég er ekki sammála þeirri nálgun sem fram kemur í frumvarpinu og tel það ekki vera hlutverk ríkisins að standa í rekstri áburðarverksmiðju,“ svaraði Ragnheiður.

Þorsteinn Sæmundsson
Hugmyndir Framsóknarflokksins gera ráð fyrir 700 þúsund tonna verksmiðju sem kosti 120 milljarða í byggingu og skapi 150-200 hálaunuð störf, en um hátækniiðnað er að ræða að sögn Þorsteins sem gæti laðað að ungt vel menntað fólk. 

Þorsteinn vísar þeirri gagnrýni á bug um að áburðarverksmiðja sé ekki líkleg „til að laða brottflutta Íslendinga aftur heim og til að vekja ungum Íslendingum von í brjósti um að stjórnvöld ætli sér að skapa þeim tækifæri og atvinnuöryggi í framtíðinni,“ eins og segir í greinargerð tillögunnar. 

En má ekki skapa mun fleiri störf fyrir svo mikið fjármagn sem kynni að verða bundið í áburðarverksmiðju?

„Eflaust. Stóriðjustörf eru dýr. En þetta eru bara störfin í verksmiðjunni sjálfri, svo falla til fjölmörg afleidd störf. Ég er fylgjandi því að við förum í breiða atvinnuuppbyggingu, og við framsóknarmenn tölum fyrir því að auka matvælaframleiðslu, svo dæmi sé tekið,“ segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×