Innlent

„Ekki setja neitt á netið sem þú vilt ekki að endi á forsíðum fjölmiðla“

Árdís Ósk Steinarsdóttir skrifar
Björn Rúnar Egilsson, verkefnastjóri Heimila og skóla og SAFT svara spurningum um nethegðun.
Björn Rúnar Egilsson, verkefnastjóri Heimila og skóla og SAFT svara spurningum um nethegðun. Mynd/aðsend
„Það er hryggilegt að sjá hvernig fullorðið fólk hagar sér á netinu. Það grefur undan okkar starfi gegn netníði þegar fullorðið fólk sem á að vera fyrirmynd sýnir óábyrga hegðun,“ segir Björn Rúnar Egilsson um ummæli Hildar Lilliendahl sem hafa verið á milli tannanna á fólki. Björn er verkefnastjóri bæði SAFT og Heimila og skóla.

SAFT stendur fyrir Samfélag, fjölskylda og tækni, og er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi.

„Netið er eins og risastór fjölmiðill. Við eigum ekki að segja neitt á netinu sem við viljum ekki að birtist á forsíðu frétta.“ Um er að ræða líkingu sem notuð er í fræðslu Heimila og skóla um að netið gleymi engu.

„Að segja að eitthvað sé grín er ekki lengur afsökun. Þó maður sé að grínast er svo erfitt að greina á milli gríns og alvöru á netinu. Netið er ekki einhver annar heimur. Orð hafa afleiðingar og það er annað fólk bak við skjáinn“, segir Björn um að Hildur beri fyrir sig að ummælin hafi verið einhverskonar grín.

Stjórnmálamenn og samfélagsmiðlar

„Við þurfum að geta búið í þjóðfélagi þar sem við erum ósammála án þess að beita ofbeldi,“ sagði Björn aðspurður um hegðun alþingismanna á samfélagsmiðlum. Nýlega var fjallað um færslu Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, þar sem hún hvatti fyrirtæki til að sniðganga fjölmiðil.

Árið 2012 var settur á laggirnar vinnuhópur um samfélagsmiðla og upplýsingastefnu Stjórnarráðsins. Hópurinn skilaði frá sér skýrslu sama ár.

Í skýrslunni var fjallað um hvernig Stjórnarráðið getur nýtt sér samfélagsmiðla og gerð voru drög að leiðbeiningum um það hvernig umgangast eigi samfélagsmiðla.

Nethegðun fjölmiðla

Aðspurður segir Björn fjölmiðla líka bera ábyrgð á því hvernig þeir matreiða eða setja fréttir upp.

„Fólk er mislæst á fjölmiðla og grípur fyrirsagnir á lofti. Það þarf vissulega að vanda sig þar og ekki setja fram ýkta og útúrsnúna mynd á því sem fólk er að gera,“ segir Björn.

„Bráðum þurfa börnin að kenna fullorðnum hvernig hegða sér eigi á netinu“

Hingað til hefur SAFT einbeitt sér að starfi með börnum. Björn tekur undir að nýlega hafi sýnt sig að það þurfi mikla fræðslu fyrir fullorðna.

„Bráðum þurfa börnin að kenna fullorðnum hvernig hegða sér eigi á netinu,“ segir Björn.

Í október síðastliðnum var farið af stað með verkefnið „Ekkert hatur“ sem vinnur gegn hatursorðræðu á Íslandi. Verkefninu, sem meðal annars er beint gegn hatursáróðri og kynþáttafordómum, var ýtt úr vör á landsleik Íslands gegn Kýpur á Laugardalsvelli.

Hér má sjá myndband sem tólf til átján ára börn gerðu í samstarfi við SAFT í átaki gegn netníði.






Tengdar fréttir

„Hefði aldrei fengið þessa viðurkenningu“

"Við hjá Stígamótum erum vissulega mjög leiðar yfir þessu og urðum fyrir miklum vonbrigðum,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, í samtali við Vísi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×