Vladimír Pútín, forseti Rússlands, fyrirskipaði heræfingar með skömmum fyrirvara skammt frá landamærum Úkraínu í dag. Eins og greint var frá fyrr í dag brutust út átök í borginni Simferopol á Krímskaga í dag milli stuðningsmanna og andstæðinga Viktors Janúkovítsj, fyrrverandi forseta Úkraínu.
Utanríkisráðherra Rússlands hefur heitið því að herinn muni ekki hafa afskipti af átökunum í Úkraínu, en erlendir fréttaritarar setja þó spurningamerki við tímasetningu heræfingarinnar. Þá lét varnarmálaráðherra Rússlands hafa eftir sér í fjölmiðlum í dag að æfingarnar væru til þess að kanna viðbragðsflýti hersins en hann minntist ekki á málefni Úkraínu.
Varnarmálaráðherra Úkraínu vildi ekki tjá sig um æfingarnar þar sem þær fóru fram á rússneskri grundu. BBC hefur eftir rússneskum miðlum að í það minnsta sex viðbragðsæfingar hafi farið fram í fyrra.
Fyrirskipaði heræfingar skammt frá landamærum Úkraínu
Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
