Erlent

Eignanám lögreglu löglegt

Samúel Karl Ólason skrifar
David MIranda og Glenn Greenwald.
David MIranda og Glenn Greenwald. Vísir/AFP
Aðgerðir lögreglu í Bretlandi, þegar tölvur og gögn voru tekin af sambýlismanni blaðamannsins Glenn Greenwald, hafa verið úrskurðaðar löglegar. Blaðamaðurinn hefur fjallað mikið um Edward Snowden.

David Miranda var í haldi tollvarða á Heathrow-flugvelli í níu klukkustundir í ágúst síðastliðnum. Miranda var á leið til Brasilíu og fékk að halda för sinni áfram að yfirheyrslu lokinni. Hins vegar voru farsími, minniskort og tölva Miranda gerð upptæk.

Greenwald hefur mikið skrifað um njósnir yfirvalda í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hann fékk afhent gögn sem Edward Snowden stal af NSA, öryggisþjónustu Bandaríkjanna. Gögn fengin frá Snowden voru meðal þeirra sem voru tekin af Miranda á flugvellinum.

Lögfræðingar Miranda héldu því fram að hann hafi verið færður til yfirheyrslu og haldið á flugvellinum svo yfirvöld gætu komist yfir gögn blaðamanns. Á það féllust dómarar ekki og sögðu að aðgerð tollvarða og lögreglu hefði verið í þágu þjóðaröryggis.

„Við höfðum vísbendingar um að David Miranda væri með stolin trúnaðargögn frá Edward Snowden. Við vorum hrædd um að ef gögnin yrðu gerð opinber myndi öryggi fólks vera í hættu,“ sagði Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, við BBC.

Glenn og sambýlismaður hans, David Miranda, ætla að áfrýja úrskurðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×