Enski boltinn

Terry útilokar endurkomu í landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Terry fagnar með Samuel Eto'o í gær.
Terry fagnar með Samuel Eto'o í gær. Vísir/Getty
Eftir 4-0 sigurleik Chelsea á Tottenham í gær var John Terry, fyrirliði Chelsea, enn á ný orðaður við endurkomu í enska landsliðið.

Terry hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undir stjórn Jose Mourinho og átt stóran þátt í góðu gengi Lundúnaliðsins sem situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og hefur fengið á sig fæst mörk allra í deildinni í vetur.

Terry gaf það út í september 2012 að hann væri hættur í landsliðinu í kjölfar Anton Ferdinands-málsins, en Ferdinand ásakaði Terry á sínum tíma um kynþáttaníð í hans garð. Og eftir leikinn gegn Tottenham tók Terry fyrir endurkomu í enska landsliðið.

„Minn tími er liðinn og nú er það í höndum Gary [Cahill] og ungu strákanna að halda merki landsliðsins á lofti,“ sagði Terry í viðtali við Sky Sports eftir leikinn.

Terry, sem spilaði fyrir England á HM 2006 og 2010, bar í viðtalinu mikið lof á félaga sinn í vörn Chelsea, Gary Cahill og sagði hann vera verðugan arftaka sinn. „Hann virðist bæta sig með hverjum deginum,“ sagði Terry. „Hann er frábær í loftinu og les leikinn vel, hann er fljótur og hefur verið stórkostlegur fyrir Chelsea.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×