Enski boltinn

Chelsea fór illa með Gylfa og félaga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chelsea er komið með sjö stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa unnið 4-0 sigur á Tottenham í dag. Öll mörkin komu í síðari hálfleik.

Fyrri hálfleikur var að mestu tíðindalítill en sá síðari var eign heimamanna, sérstaklega þar sem að varnarmenn Tottenham gerðu hver mistökin á fætur öðrum.

Strax á 56. mínútu gaf Jan Vertonghen Chelsea fyrsta markið er hann gaf boltann á Samuel Eto'o eftir að hafa runnið til í grasinu. Eto'o komst einn gegn Hugo Lloris í marki Tottenham og skoraði örugglega.

Younis Kaboul var svo rekinn af velli á 60. mínútu fyrir að brjóta á Eto'o í teignum. Vítaspyrna var dæmd og Eden Hazard kom Chelsea í 2-0.

Eftir þetta var ljóst að sigur Chelsea var tryggður en varamaðurinn Demba Ba bætti við tveimur mörkum á lokamínútum leiksins, bæði eftir mistök varnarmanna Tottenham.

Fyrst rann Sandro til í vítateignum og lagði um leið boltann fyrir Ba sem skoraði örugglega. Stuttu síðar gerði Kyle Walker tilraun til að skalla boltann aftur á Lloris í markinu en Ba varð fyrr til að ná til boltans og skoraði hann í autt markið.

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Tottenham en var tekinn af velli eftir að Kaboul fékk að líta rauða spjaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×