Innlent

Spá allt að 50 metrum á sekúndu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Allt að 40-50 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi frá því um kl. 15 og fram á kvöld.
Allt að 40-50 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi frá því um kl. 15 og fram á kvöld.
Búist er við suðaustan stormi á landinu í dag sem fyrst mun gera vart um sig SV-til um og eftir hádegi og verður að hámarki á því svæði á milli klukkan þrjú og fimm í dag. Síðar í dag mun snúa í suðvestur og þá fylgir úrkoma sem víða mun ná upp á fjallvegi.

Þar sem sem snjór og ís er fyrir verður flughált við þessar aðstæður síðar í dag og kvöld. Reikna má með hviðum 30-40 m/s á utanverðu Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli eftir hádegi og til kl. 17. Allt að 40-50 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi frá því um kl. 15 og fram á kvöld.

Færð og aðstæður

Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en annars er víða hálka eða hálkublettir á Suðurlandi. Þæfingur er í Kjósarskarði en ófært eins og er um Krísuvíkurveg við Kleifarvatn.

Það er hálka eða hálkublettir víða á Vesturlandi. Ófært er á Fróðárheiði og beðið með mokstur.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum vegum og éljagangur víða á sunnanverðum fjörðunum.  Snjóþekja og skafrenningur er á Klettshálsi,  Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

Hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á Norðurlandi. Vegurinn um Hólasand er ófær og þungfært er í Bárðardal.

Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði og verður ekki mokað í dag.

Víða er hálka eða hálkublettir á Austurlandi en snjóþekja á Fjarðarheiði.  Greiðfært er síðan frá Reyðarfirði og að Kvískerjum en hálka, snjóþekja og hálkublettir áfram með suðurströndinni.

Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði

Í þessari viku er áfram spáð umhleypingasömu veðri. Vegagerðin mun reyna að nýta alla þá daga sem gefast til að opna leiðirnar og verða upplýsingar um stöðu mála hverju sinni birtar á heimasíðu Vegagerðarinnar og veittar í síma 1777.

Hringvegur við Súlu/Núpsvötn á Skeiðarársandi

Vegna vinnu við einbreiða brú má búast við umferðartöfum allt að 30 mínútur í senn milli kl. 8 og 19 mánudag til fimmtudags í þessari viku, 10. -13. mars.

Vinna í Múlagöngum

Vegna vinnu við endurnýjun á rafkerfum í Múlagöngum má búast við umferðartöfum þar yfir nóttina, frá kl. 21:00 til kl. 06:00 að morgni. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar og virða hraðatakmarkanir meðan á framkvæmdum stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×