Sport

Vinsældir NFL-deildarinnar munu hrynja

Mark Cuban.
Mark Cuban. vísir/getty
Mark Cuban, eigandi NBA-liðsins Dallas Mavericks, er ekki vanur að liggja á skoðunum sínum og á því hefur ekki orðið nein breyting.

Amerískur fótbolti er langvinsælasta íþróttagreinin í Bandaríkjunum og deildin malar gull. Cuban spáir því þó að vinsældir deildarinnar eigi eftir að hrapa mikið á næstu tíu árum. Ástæðan er sú að deildin sé svo gráðug að mati Cuban.

"Ég er bara að segja ykkur þetta. Svín verða feit og svo er þeim slátrað. Það er svínalykt í NFL-deildinni í dag. Þegar fólk gengur of langt þá misbýður fólki og það leitar eitthvað annað," sagði Cuban.

"Þegar fólk er með eitthvað gott í höndunum og verður gráðugt þá klikkar það aldrei nokkurn tímann að allt snýst í höndunum á því. Þetta er regla númer eitt í viðskiptum."

Það sem Cuban er helst að vísa í núna er að NFL-deildin er að fara að gera meira úr fimmtudagsleikjunum sínum. Einnig ætlar NFL að vera með tvo laugardagsleiki í sextándu viku næsta tímabils. Áhorf á leiki í NFL-deildinni er ótrúlegt í Bandaríkjunum og ekkert sjónvarpsefni þar í landi sem kemst með tærnar þar sem NFL er með hælana.

"Deildin er að reyna að taka yfir öll sjónvarpskvöld vikunnar. Á endanum mun fólk fá ógeð af þessu."

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×