Innlent

Skólahald hefst á mánudaginn

Samúel Karl Ólason Stefán Árni Pálsson skrifar
Samninganefndir ríkisins og framhaldsskólakennara skrifuðu undir samning um klukkan hálf fimm í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Skólahald mun því hefjast aftur eftir helgi. Verkfallið hófst á miðnætti þann 17. mars síðastliðinn og mun því hafa staðið yfir í þrjár vikur á mánudaginn.

Samningurinn felur í sér 6,8 prósenta almenna launahækkun til 31. október 2016. Sú hækkun mun gerast í þremur þrepum. Hækkun um 2,8 prósent tekur gildi strax. Launin munu svo hækka um tvö prósent 1. janúar 2015 og aftur um tvö prósent 1. janúar 2016.

Samningurinn snýr einnig að aukinni kennsluskyldu kennara og er meiri viðveru krafist af þeim. Þrjár hækkanir eru á tímabilinu vegna þeirra breytinga.

Strax bætast við fjögur prósent vegna breytingana. Þann 1. ágúst 2014 bætast við fimm prósent og 1. janúar 2016 bætast við átta prósent.

„Skrítið að þessu sé loks lokið,“ sagði Aðalheiður Steingrímsdóttir við athöfnina. „Við erum búin að sitja yfir þessu lon og don.“

„Þegar upp er staðið höfum við náð mjög merkum áfanga í umbótakjörum kennara.“ Þá þakkaði hún samninganefnd ríkissins yfir gott samstarf.

Ólafur H. Sigurjónsson formaður félags stjórnenda í framhaldsskólum segir þetta mjög merkt skref í þróun menntunar á Íslandi. „Þessir samningar verða okkur til heilla til mjög langs tíma.“

Vísir/SÁP
Vísir/SÁP
Vísir/SÁP
Að sjálfsögðu var boðið upp á vöfflur að lokinni undirskrift.Vísir/SÁP
Vísir/SÁP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×