Innlent

„Það verður unnið fyrir heimilin í landinu“

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Vísir/Heimir Már

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að dagurinn verði góður og farsæll fyrir íslensku þjóðina. Djúpt og ríkt traust ríkti milli hennar Kristrúnar Frostadóttur og Ingu Sæland.

„Þetta er tilhlökkunarefni fyrir okkur í Viðreisn að ganga inn í þetta stjórnarstarf,“ sagði Þorgerður. Hún sagði þingflokkinn spenntan fyrir komandi ríkisstjórnarstarfi og að efnahagslegur stöðugleiki yrði helsta áherslumálið.

Sjá einnig: Vaktin - Ný ríkis­stjórn kynnt fyrir landanum

„Það verður unnið fyrir heimilin í landinu, fyrirtækin. Það verður aukin verðmætasköpun um leið og við ýtum undir velferð í landinu,“ sagði hún. Ríkisstjórnin þyrfti að sýna vinnusemi og í senn skilning á mismunandi stöðu fólks.

Þorgerður sagðist fullviss um að ríkisstjórnin myndi endast kjörtímabilið.

„Við vitum alveg að hverju við göngum og áttum okkur á því að samhliða sterkum stjórnarsáttmála og góðri stefnuyfirlýsingu að þá þarf liðsheildin líka að vera sterk. Við pössum upp á það.“

Þorgerður staðfesti að Viðreisn fengi fjóra ráðherra í ríkisstjórninni en fregnir hafa borist af því að Samfylkingin muni einnig fá fjóra ráðherra og Flokkur fólksins þrjá.

Þá sagði hún að valið á ráðherrum væri erfitt, því þingflokkurinn væri skipaður mjög öflugu fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×