Innlent

"Þetta eru allt mjög viðkvæm mál“

Karl R Lilliendah er leikstjóri þáttanna sem verða alls fimm talsins og er eitt mál tekið fyrir í hverjum þætti.
Karl R Lilliendah er leikstjóri þáttanna sem verða alls fimm talsins og er eitt mál tekið fyrir í hverjum þætti. glap.jpg
Tökur hófust á leiknum atriðum fyrir þáttaröðina Íslenskir ástríðuglæpir í kvöld en sýningar þeirra hefjast þann 27. apríl. Ásgeir Erlendsson, umsjónarmaður þáttanna, var ánægður með hvernig til tókst.

„Við sviðsettum atvik sem gerðust árið 1977 hér rétt fyrir utan bæinn. Um er að ræða sögu sambýlisfólks sem fékk óhugnalegan og sorglegan endi. Við vöndum okkur mikið þegar kemur að þessum sviðsetningum og erum með mjög fært fólk sem sér til þess að allt líti út fyrir að gerast á þessum árum.“

Þættirnir verða alls fimm talsins og er eitt mál tekið fyrir í hverjum þætti. Elsta málið er frá árinu 1977 og það nýjasta frá 2004. Ásgeir segir það helst einkenna ástríðuglæpi að tilfinningatengsl eru á milli gerenda og þolenda.

„Í flestum tilfellum spilar tilfinningahiti stórt hlutverk. Oft er það svo að annar aðilinn telur á sér brotið og geta afleiðingarnar orðið ófyrirsjáanlegar. Í sumum málanna er bakgrunnur gerandans ekki hefðbundinn fyrir afbrotamann þar sem um venjulegt fjölskyldufólk er að ræða sem fyrirfram hefði ekki talist líklegt til að fremja glæp,“ segir Ásgeir.

Hann segir mikla áherslu lagða á að nálgast viðfangsefnið af nærgætni. „Við höfum tekið okkur góðan tíma í að framleiða þættina og erum að vanda okkur. Þetta eru allt mjög viðkvæm mál og við höfum nálgast þau af virðingu og nærgætni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×