Erlent

Grímuklæddir menn hertaka lögreglustöð í Úkraínu

Bjarki Ármannsson skrifar
Aðgerðasinnar sitja um lögreglustöð í Donetsk í dag.
Aðgerðasinnar sitja um lögreglustöð í Donetsk í dag. Vísir/AFP
Vopnaðir, grímuklæddir aðgerðasinnar hafa í dag hertekið lögreglustöð og öryggismiðstöð í bænum Sloviansk í austanverðri Úkraínu. Átök standa nú víða yfir í landinu og ásakar ný ríkisstjórn yfirvöld í Rússlandi um að hafa komið þeim af stað.

BBC greinir frá því á vef sínum að nokkur dæmi eru um að aðgerðarsinnar í landinu hafi tekið yfir opinberar byggingar með valdi í dag. Auk lögreglustöðvarinnar í Sloviansk, eru nú byggingar í bænum Druzhkovka á valdi þeirra. Einnig var hleypt af skotum í Kramatorsk er lagt var til atlögu við stjórnsýslubyggingar að sögn starfandi innanríkisráðherra Úkraínu. Þá sagði lögreglustjóri í borginni Donetsk af sér eftir að stór hópur fólks mótmælti fyrir framan lögreglustöð hans.

Fjölmargir íbúar Austur-Úkraínu hafa rússnesku að móðurmáli og styðja innlimun svæðisins í Rússland. Síðan Viktor Janúkóvitsj, forseti Úkraínu, var hrakinn frá völdum í febrúar hafa mikil mótmæli átt sér stað á svæðinu. Undanfarna daga hefur verið setið um byggingar í borginni Donetsk  þar sem mótmælendur fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort svæðið eigi að gerast hluti Rússlands, líkt og gert var á Krímskaganum nú nýverið.  

Yfirvöld í Rússlandi segjast ekki standa á bakvið mótmælin þrátt fyrir ásakanir ríkisstjórnar Úkraínu. Starfandi utanríkisráðherra, Andreí Deshjitsía, hefur beðið Rússa um að láta af aðgerðum í landinu tafarlaust. 


Tengdar fréttir

Vilja innlima fleiri héruð í Rússland

200 mótmælendur, hliðhollir Rússum, brutust inn í stjórnsýslubyggingu í borginni Donetsk í Austurhluta Úkraínu. Þeir krefjast þess atkvæðagreiðslu um sameiningu við Rússland.

30.000 hermenn við landamæri Úkraínu

Nýleg skýrsla leyniþjónusta Bandaríkjanna segir að líklegra sé en áður hefur verið talið að rússneskir hermenn muni fara inn í austur Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×