Innlent

Miðilsfundir á Facebook: Segir að sér hafi borist skilaboð að handan úr nýlegu bílslysi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Skrif Júlíönu á Facebook hafa vakið mikla athygli.
Skrif Júlíönu á Facebook hafa vakið mikla athygli. Vísir/aðsent
Miðilsfundir Júlíönu Torfhildar Jónsdóttur hafa vakið mikla athygli, væntanlega vegna þess að þeir fara fram á Facebook. Á síðasta fundi skráðu á fimmta hundrað manns sig til leiks. Júlíana sagðist hafa komist í samband við ungan dreng sem lést í bílslysi fyrir skömmu og þótti mörgum þeir kannast við efnisatriði málsins og tengdu við mál sem var mikið í fjölmiðlum fyrir skömmu.  

Júlíana hefur orðið var við gagnrýni í netheimum í dag, sem snúa helst að frásgön hennar af piltinum sé lést í bílslysinu. Til að mynda hafa á áttunda hundrað manns deilt grein eftir Gísla Ásgeirsson, sem er ritstjóri Málbeinsins.

Júlíana segist ekki skilja þessa neikvæðni í sinn garð.

Lifði ekki lengi en lifði samt áfram

Þau skilaboð sem Júlíana segir að hafi komið að handan frá dreng sem lést í bílslysi hafa vakið mikla athygli:

„Mér finnst hann segja ég lifði áfram, en ekki lengi en ég fékk samt sem áður að lifa áfram. Mamma takk fyrir að þú tókst þessa ákvörðun.“

Meðal annars sagði Gísli Ásgeirsson á vefnum Málbeinið: „Þetta tiltekna slys og eftirmáli þess hefur verið nógu mikið í fréttum til að ekki þarf að gúgla til að vita hvaða fólk miðillinn á við.“

Skilur ekki neikvæðni í sinn garð

„Já, það kom þarna ungur drengur í gegnum miðilsfundinn. Mér er sagt að mál hans hafi átt að vera í íslenskum blöðum,“ segir Júlíana.

Júlíana segist ekki skilja neikvæðnina í sinn garð. „Ég er bara að gera þetta af góðmennsku minni og í frítíma mínum. Ég græði ekkert á þessu,“ segir hún.

Henni finnst sérstakt að öll athyglin beininst að einu máli. „Það komu tuttugu manns í gegnum mig á fundinn í gær en allir eru að ræða um þetta eina mál. Mér finnst þessi gagnrýni líka leiðinleg. Ég er búsett í Danmörku og hér eru miðlar ekki gagnrýndir á þennan hátt. Þeir sem trúa ekki á þetta leyfa þeim sem trúa að vera í friði,“ útskýrir hún.

Allt gúggltækt

Gísli Ásgeirsson hefur gagnrýnt Júlíönu og hennar miðilsfundi á Facebook. „Ég fylgdist til dæmis með miðilsfundi þann 13. apríl. Þar áttu öll þau mál sem komu upp það sameiginlegt að vera vel „gúggltæk“, eða eitthvað sem var búið að vera í fréttum. Ég vil þó taka fram að þessir fundir eru mér að meinlausu. Ég vil bara koma minni gagnrýni á framfæri. Mér fannst þetta sameiginlegt þema; að upplýsingar um öll málin sem komu upp á fundinum mátti finna á Google vera eftirtektarvert,“ bætir Gísli við.

Júlíana gefur ekki mikið fyrir þá gagnrýni. Hún segist ekki hafa tíma til þess að leita að þessum upplýsingum á netinu. Þær komi að handan.

„Guð minn góður. Ef ég ætti að fara að róta í prófílum hjá öllu fólki sem kemur á fundina. Ég veit ekki hvernig ég ætti að fara að því, ég hef ekkert tíma í það,“ segir hún.

Gísli birtir skjáskot af skrifum Júlíönu á Facebook. Þar má sjá þau skilaboð sem hún flytur að handan til móðir drengsins sem lést í bílslysinu. Júlíana er ósátt við að Gísli hafi birt þessi skilaboð, þau hafi einungis verið ætluð móður drengsins og hafi nú verið eytt.

„Þessi skilaboð voru sett á opinn vegg á Facebook og um fimm hundruð manns sáu þau,“ útskýrir Gísli.

Auglýsir miðilsskólann

Ekki þarf að greiða fyrir þátttöku í miðilsfundunum á Facebook en Júlíana notar vefsvæði sitt til að auglýsa norrænan miðilsskóla sem hún kennir við.

Orðrétt segir Júlíana svo frá skólanum, á vefsvæði sínu á Facebook:

„Miðilskólinn byrjar þann 4. maí og hlakka ég mikið til að vinna með ykkur, orkan frá Íslendingum er allt öðruvísi en hjá Dönum, hún er sterkari og öflugari. Ég kenni gamla tækni sem mun gefa þér verndun og þegar ég segi verndun þá er mjög mikilvægt að geta lokað sig niður sem þýðir verndun. Ef þú gengur um og ert alltaf opinn, tekur það miklar orku frá þér og oft færðu meir að vita hverning öðrum lýður en þú vilt fá að vita.“

Júlíana býður einnig upp á einkatíma, þar sem hún nýtir miðilsgáfu sína í gegnum Facebook í einkaspjalli við fólk. Fyrir þetta rukkar hún, en segir ágóðann renna til góðra málefna.

„Ég hef styrkt fjölskyldu sem glímdi við að fjölskyldufaðirinn fékk krabbamein. Einnig hef ég stutt við einstæðar mæður hér í Danmörku. Allur ágóðinn af miðluninni rennur til góðra málefna. Ég þarf ekkert fyrir mig sjálfa, ég er fjármálastjóri í fyrirtæki hér í Danmörku og hef nóg fyrir mig,“ segir hún.

Hún segir að miðilsfundir á Facebook þekkist erlendis og vonar að þetta festist í sessi á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×