Innlent

Eggjum kastað í hús eineltisfórnarlambs í Grindavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eggjum var kastað í hús fjölskyldu barns í nótt sem orðið hefur fyrir einelti af hendi grunnskólakennara í Grindavík. Frá þessu greindi Stefán Karl Stefánsson, fyrrverandi formaður Regnbogabarna, í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun.

Foreldrar tveggja barna í bænum sendu frá sér yfirlýsingu fyrir helgi í kjölfar fjölmiðlaumræðu og það sem þau telja bág viðbrögð bæjar- og skólayfirvalda í bænum. Kennarinn, sem staðfest er af hendi sálfræðings að lagði a.m.k. eitt barn í einelti, starfar enn við skólann. Í hinu tilfellinu komst sálfræðingurinn að þeirri niðurstöðu að um ámælisverða hegðun væri að ræða af hendi kennarans.

Nemandinn sem varð fyrir staðfestu einelti er kominn í annan skóla. Hinn nemandinn, sem varð fyrir ámælisverðri hegðun af hendi kennarans, er kominn í einkakennslu ásamt öðrum nemanda sem treystir sér ekki að sækja kennslustundir viðkomandi kennara. Einkakennslan er í formi sjúkrakennslu á skólaskrifstofu, tíu kennslustundir í viku.

Stefán Karl sagði samfélagið í Grindavík skiptast í tvær fylkingar hvað þetta mál snerti. Annars vegar fylkingu þeirra efnameiri og hins vegar hinna fátækari sem mættu sín lítils. Undirskriftasöfnun er í gangi á netinu kennaranum til stuðnings en þar hafa 26 skrifað undir.

Þá hefur verið stofnun Fésbókarsíða undir yfirskriftinni „Við viljum einelti úr Grunnskóla Grindavíkur“. 196 hafa líkað við síðuna þegar þetta er skrifað en skilaboðin á síðunni eru þessi:

„Einelti er ofbeldi í sinni verstu mynd og viljum við stoppa það með því að safna sem flestum á þessa síðu til að hlustað verði á þolendur eineltis.“

Þá hafa 38 skrifað undir lista þar sem viðkomandi kennari er nafngreindur og markmiðið sagt vera að berjast gegn einelti hans gegn nemendum eins og sést hér að neðan.

38 hafa skrifað undir þegar þetta er skrifað.

Tengdar fréttir

Einelti kennara í Grindavík: Nemendur hættir að mæta í skólann

Tvær formlegar kvartanir hafa borist skólayfirvöldum vegna kennarans og hafa þær verið til rannsóknar hjá sálfræðingum. Fimmtán nemendur hafa skrifað undir harðorða yfirlýsingu til bæjaryfirvalda þar sem minnst sé á einelti, ofbeldi og þöggun frá fyrri tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×