Fótbolti

Stelpurnar töpuðu 0-3 út í Sviss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/KSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta tapaði 3-0 á móti sterku liði Svisslendinga í Nyon í Sviss í kvöld í undankeppni HM. Svissneska liðið er í frábærri stöðu á toppi riðilsins.

Svissneska liðið var sterkari aðilinn í leiknum og sigurinn því sanngjarn. Íslenska liðið náði þó nokkrum góðum sóknum inn á milli í þessum leik en hafði ekki heppnina með sér.

Íslensku stelpurnar lögðu upp með að verjast vel en voru mikið í eltingarleik og fengu meðal annars fjögur gul spjöld í leiknum í kvöld.

Vanessa Bernauer kom Sviss í 1-0 á 33. mínútu eftir klafs í teignum en svissneska liðið hafði pressað á það íslenska í aðdraganda marksins og markið lá því í loftinu.

Vanessa Bürki bætti við öðru marki fyrir svissneska liðið á 69. mínútu eftir hraða sókn og stungusendingu inn fyrir íslensku vörnina. Íslenska liðið tapaði boltanum á slæmum stað og þær svissnesku voru fljótar að nýta sér það.

Önnur hröð sókn og stungusending skilaði þriðja markinu á 80. mínútu en þar var Lara Dickenmann á ferðinni. Íslenska liðið hætti sér of framarlega og var refsað.

Fyrsta sætið er væntanlega úr sögunni fyrir íslensku stelpurnar eftir þetta tap en svissneska liðið hefur unnið sex sigra og gert eitt jafntefli í fyrstu sjö leikjum sínum og er í frábærri stöðu á toppi riðilsins.

Íslenska liðið á enn möguleika á öðru sætinu þar sem liðið mun væntanlega berjast við Dani og Ísrael. Íslensku stelpurnar hafa unnið alla aðra leiki sína riðlinum fyrir utan leikina við þetta gríðarlega sterka svissneska lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×